Sameiginleg landssöfnun Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar hófst í dag. Einkunnarorð eru Stöndum saman og er safnað í þágu aðstoðar innanlands.
Um er að ræða símasöfnun þar sem hringt er í eitt númer 90 15 100, og þá dragast 100 kr. frá næsta símreikningi. Lögð er áhersla á að allir geti lagt sitt að mörkum burtséð frá afkomu og aðstæðum hvers og eins með því að hafa upphæðina þetta lága. Ef allir landsmenn standa saman ættu að safnast 32 milljónir króna til verkefna Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar vegna efnahagsþrenginganna, að því er segir í tilkynningu.
„Með þessu samstarfi Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar eru samtökin að sinna brýnni þörf á erfiðum tímum. Söfnunarféð rennur til matvælaaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar um allt land, en Rauði krossinn mun veita sálrænan stuðning og hjálpa fólki við að halda sér virku í samfélaginu þrátt fyrir áföll einstaklinga og fjölskyldna sem fylgja í kjölfar efnahagshrunsins."