Stjórnlagaþing kostar 1,7 til 2,1 milljarða

Stjórnlagaþing getur kostað 1.700 til 2.100 milljónir króna samkvæmt mati fjármálaráðuneytis. Greinargerð og kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu um stjórnlagaþing voru kynnt á fundi sérnefndar um stjórnarskrármál í morgun.

Birgir Ármannsson og Geira H. Haarde, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, spurðu um kostnað við stjórnlagaþing við umræður á Alþingi. Þá vísaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra til þess að kostnaðarmat yrði lagt fyrir viðkomandi þingnefnd þegar málið kæmi þar til meðferðar.

Á fundi sérnefndar um stjórnarskrármál í morgun kom fram greinargerð og kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu um þetta efni og voru meginniðurstöðurnar eftirfarandi.

  • Stjórnlagaþing sem starfar í 10 mánuði: 1.176 milljónir króna
  • Stjórnlagaþing sem starfar í 18 mánuði: 1.731,6 milljónir króna
  • Stjórnlagaþing sem starfar í 24 mánuði: 2.148 milljónir króna

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórnlagaþingið starfi í 18 mánuði, en því er heimilt að stytta eða framlengja tímann, mest þó í 6 mánuði. Birgir Ármannsson segir að í ljósi þess hve verkefni stjórnlagaþings verður viðamikið, og þess að um fullkomið nýmæli er að ræða, sem á sér engin fordæmi, sé full ástæða til að ætla að starfstíminn verði aldrei undir 18 mánuðum og líklega mun nær 24 mánuðum. Kostnaðurinn verði því að öllum líkindum á bilinu 1.700 til 2.100 milljónir króna.

„Hér er auðvitað um gríðarlegan kostnað að ræða og full ástæða til að krefja forráðamanna ríkisstjórnarinnar svara um það hvort þeim sé í raun og veru alvara með að leggja út í útgjöld af þessu tagi á sama tíma og niðurskurðar er þörf á öllum sviðum ríkisrekstrarins, þ.á.m. í velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum,“ segir Birgir Ármannsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka