Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefur óskað eftir utandagskrárumræðu á Alþingi um arðgreiðslur til eigenda HB Granda hf og frestun kauphækkana launafólks.
Kristinn vekur athygli á að fyrri ríkisstjórn fékk samþykkta á Alþingi lækkun á veiðigjaldi fyrir aflaheimildir sem útgerðir greiða árlega í ríkissjóð vegna niðurskurðar á heimildum til veiða á þorski úr 190 þúsund tonnum í 130 þúsund tonn. Ekkert veiðigjald hafi verið innheimt vegna þorskveiðiheimilda síðustu tvö fiskveiðiár og gjald vegna annarra tegunda var lækkað um helming. Þannig hafi ríkið eftir 600 milljónir króna, veiðigjaldið lækkaði úr rúmum milljarði króna í 440 milljónir. Kristinn segir að ávinningur HB Granda af lækkun veiðigjaldsins sé um 60 milljónir króna.
„Ég er svo sem ekkert að gagnrýna það að þeir sem eiga fyrirtæki fái arð af peningunum sínum en ég segi, ef að staðan er þannig að fyrirtæki hefur efni á að borga sér arð, þá finnst mér engin ástæða til þess að ríkið sé að gefa eftir peninga til þessara sömu aðila, allra síst á tímum sem þessum. Nú verður ríkisstjórnin að svara því hvort hún ætli að gera eitthvað í framhaldinu,“ segir Kristinn H. Gunnarsson.
Hann segist með utandagskrárumræðunni vilja ýta á ríkisstjórnina að beita sér fyrir breytingum. Kristinn nefnir einnig að tekjuskattur af hagnaði fyrirtækja hafi verið lækkaður úr 18% í 15%.
„Og ég spyr, er það eðlilegt að ríkissjóður gefi eftir tekjur til að styrkja rekstrargrundvöll útgerðarfyrirtækja vegna samdráttar í þorskveiðum, þegar hann er genginn til baka að hálfu leyti? Fyrirtækin eiga að borga fyrir þorskveiðiheimildirnar. Þá þarf sömuleiðis að breyta lögum um stjórn fiskveiða þannig að fyrirtækin geti ekki framleigt aflaheimildir sem þau nota ekki sjálf og hagnast á því. Annað tveggja þarf að takmarka slíka framleigu eða skattleggja framleiguna,“ segir Kristinn H. Gunnarsson.