Árni Páll Árnason, formaður allsherjarnefndar, mun á næstu dögum mæla fyrir frumvarpi til breytinga á skaðabótalögunum sem felur það í sér að hætt verði að draga frá skaðabótum framtíðargreiðslur sem tjónþolar fá frá almannatryggingum og lífeyrissjóði. Breytingin er samhljóða tillögu sem hæstaréttarlögmennirnir Björn L. Bergsson, Karl Axelsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hafa lagt til en þeir hafa síðan 2004 barist fyrir afnámi þessa skerðingarákvæðis sem rataði inn í lögin 1999.
„Niðurstaða okkar í nefndinni er að gera þessa afmörkuðu breytingu á lögunum. Það eru auðvitað fleiri hlutir sem þarf að breyta í skaðabótalögunum. En þetta réttlætismál getur ekki beðið eftir slíkri heildarendurskoðun,“ segir Árni Páll og bendir á að í framhaldinu sé eðlilegt að taka til athugunar heildarsamspil skaðabótaréttarins, almannatrygginga og lífeyristrygginga.
„Mér finnst eðlilegra að tekið sé tillit til greiddra skaðabóta í almannatryggingakerfinu frekar en að láta greiðslur úr almannatryggingum koma í veg fyrir að tjónvaldur greiði fyrir tjónið.“