Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra benti á að norræna velferðarlíkanið gæti verið fyrirmynd að evrópsku samstarfi um heilbrigðisþjónustu, þegar hann opnaði ráðstefnu í Reykjavík, um norrænt samstarf um heilbrigðisþjónustu – tækifæri og hindranir í dag.
Ráðstefnan er haldin í samstarfi Íslendinga, sem fara með formennsku í norrænu ráðherranefndinni, nefndar um afnám stjórnsýsluhindarana og Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar.
„Með því að setja á dagskrá nánara norrænt samstarf um heilbrigðisþjónustu á Reykjavíkurráðstefnunni, vonumst við til að opna nýja vídd í því nána samstarfi sem nú þegar er fyrir hendi á velferðarsviðinu.
Tengingin við Norrænu nýsköpunarmiðstöðina bendir til þess að það er skilningur fyrir því að velferðar- og heilbrigðismál á Norðurlöndum eru talin meðal þeirra samfélagslegu lausna sem við ættum að kynna öðrum í alþjóðasamfélaginu. Það er einmitt alþýðleikinn og gott aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu , sem að mínu mati verður til þess að aðrar þjóðir munu taka okkur sér til fyrirmyndar.
Norrænar þjóðir mega ekki gleyma því að þau samfélög sem við höfum byggt upp standa á grunni sem vert er að vernda og verður gulls ígildi bæði í efnahagskreppum og á alþjóðavettvangi “, sagði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.