Veðurstofan í samráði við lögreglustjórann á Vestfjörðum hefur lýst yfir óvissustigi í Bolungarvík og samfara því hættustigi á reit 4 í Bolungarík. Rýming er hafin. Á reit 4 eru eftirtalin hús: Ljósaland 2, Traðarland 18, 21, 22 og Tröð. Gert er ráð fyrir að umrædd hús verði mannlaus fyrir klukkan 12 á hádegi.
Reitur 4 er fyrir neðan Traðargil í Bolungarvík og þar er verið að setja upp snjóflóðavarnargarð sem ekki er tilbúinn og því þarf að koma til rýmingar. Önnur hús í Bolungarvík eru utan reits 4 og því ekki á hættusvæði.
Ástæða rýmingarinnar er vegna skyndilegra hlýinda sem gerast hraðar en von var á og því að von er á meiri hlýindum og rigningu í nótt. Könnun á aðstæðum í Skálavík, ný náttúruleg flóð þar og niðurstöður sprenginga sýna að veika lagið er ennþá í hjarninu. Snjóflekinn ofan á því er mjög þéttur og er sjálfur sterkur, en ef hann brotnar getur farið af stað stórt snjóflóð. Talið er frekar ólíklegt að flóð muni fara af stað á þennan hátt í Traðargili, en ekki er hægt að útiloka að slíkt gerist þegar skyndileg hlýnun veikir flekann. Hér er um varúðarráðstöfun að ræða til að tryggja sem best öryggi íbúa á fyrrgreindum reit 4.
Búist er við langvarandi hlákukafla og því er óvíst hvenær hægt verður að aflétta rýmingu. Þar sem hlýnunin er að ganga í garð núna rétt fyrir hádegið er ekki mælt með því að fólk sem býr á rýmingarreitnum dvelji heima hjá sér að borða í hádeginu eða að börn dveljist í húsunum eftir skóla. Ekki er þó neitt því til fyrirstöðu að menn heimsæki húsin og sæki í rólegheitum það sem vantar í dag.
Fólk er beðið um að virða ákvarðanir um rýmingu og vera ekki á ferðinni um reit 4 nema í samráði við lögreglu fyrr en hættustigi er aflétt.