Innbrot og fíkniefnaakstur

Brotist var inn í söluturninn Grillnesti í Mosfellsbæ í nótt. Þaðan var stolið átta þúsund krónum auk símainneignar. Ekki er vitað hverjir voru að verki en rannsókn málsins er í gangi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vitað er að þeir sem voru að verki komust inn í söluturninn í gegnum lúgu á hlið hússins.

Að öðru leyti var nóttin heldur róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, utan þess að tveir ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Mál þeirra eru í rannsókn en þeirra bíður ökuleyfissvipting ef grunurinn reynist á rökum reistur.

Þá handtók lögreglan á Suðurnesjum tvo menn í bíl í gærkvöldi, grunaða um að hafa stolið einni fartölvu úr versluninni Tölvulistanum í Reykjanesbæ. Grunur leikur á að þrír menn hafi verið þar að verki en sem fyrr segir voru þeir aðeins tveir í bílnum þegar að var komið. Þeir voru þöglir sem gröfin  við handtökuna að sögn lögregluna og gáfu ekkert upp, en tölvuna var ekki að finna í bílnum hjá þeim. Sá sem ók var hins vegar grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, svo meintur tölvuþjófnaður er ekki eina sakarefnið í því máli.

Víðast hvar var nóttin róleg, en á Akureyri var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var á ferð innanbæjar og bíður mál hans rannsóknar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert