Jafnréttisstofu hafa borist formlegar kvartanir vegna skipana í bankaráð Seðlabankans og Nýja Kaupþings, þar sem óskað hefur verið eftir því að Jafnréttisstofa kanni lögmæti þessara skipana. Einnig hefur borist sambærileg kvörtun vegna skipunar nýrrar stjórnarskrárnefndar.
Bankaráð Seðlabankans var kjörið af Alþingi í gær en í því sitja fimm karlar og tvær konur sem aðalmenn. Er þetta óbreytt kynjahlutfall frá fyrra bankaráði sem var kjörið af Alþingi árið 2007. Þá eru fimm konur og tveir karlar varamenn.
Stjórn Nýja Kaupþings er nú skipuð fimm konum eftir hluthafafund þann 26. febrúar sl., en varamenn eru þrír karlar og tvær konur. Sérnefnd um stjórnarskrármál var síðan kjörin af Alþingi 12. mars sl., en hana skipa átta karlar og ein kona.
Í erindum til Jafnréttisstofu er vísað til ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, en þar segir að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40%, þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.
Jafnréttisstofa hefur gert talsvert af því að minna á þetta ákvæði jafnréttislaganna og má þar nefna að send voru bréf til bankastjórna allra ríkisbankanna þriggja í október, þar sem minnt var á nefndarákvæðið og fleiri ákvæði laganna. Einnig var sent bréf til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar í febrúar sl., þar sem minnt var á ákvæði laganna um skipan í nefndir, stjórnir og ráð, að því er segir í tilkynningu.
Loks hefur Jafnréttisstofa sent erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna skilanefnda bankanna. Jafnréttisstofa lítur öll möguleg brot á jafnréttislögum alvarlegum augum og mun taka þessar kvartanir til afgreiðslu.