Launamálin endurmetin

Kristján G. Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján G. Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Ómar

„Þetta neyðir okkur til að endurmeta þá ákvörðun að fresta endurskoðun kjarasamninga, því það er greinilega meiri innistæða fyrir hendi heldur en upp var gefin, a.m.k. í þessari starfsgrein,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS), um þá ákvörðun stjórnar HB Granda að greiða hluthöfum 8% arð. Segir Kristján ljóst að þessi ákvörðun verði rædd á formannafundi SGS nk. fimmtudag.

Verkalýðsforystan hefur brugðist illa við fréttunum af fyrirhugaðri arðgreiðslu. Þannig skorar Efling-stéttarfélag á stjórn HB Granda, í ljósi arðgreiðslna til hluthafa og yfirlýsinga um að fyrirtækið standi vel rekstrarlega, að taka umsvifalaust ákvörðun um að launahækkun til starfsmanna Granda hf. komi þegar í stað til framkvæmda.

Setur allt á annan endann

Að sögn Kristjáns kemur ákvörðun stjórnar HB Granda einkennilega fyrir sjónir þegar blekið sé ekki þornað á þeim pappírum þar sem beðist var undan launahækkunum til handa verkafólki. „Ef menn hafa svigrúm til þess að greiða sér ríflegan arð miðað við ástandið í þjóðfélaginu, þá er svigrúm til launahækkana hjá fiskverkafólki, sem á þær svo sannarlega skilið,“ segir Kristján og bendir á að fiskverkafólk hafi á síðustu mánuðum spýtt í lófana til þess að afla eftirsóttra gjaldeyristekna fyrir landið. „Ég ætla rétt að vona að stjórn Granda sjái að sér og kippi málinu í liðinn áður en þeir setja hér þjóðfélagið á annan endann.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert