Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, kynnti átján liða áætlun framsóknarmanna um viðreisn efnahagslífsins í framsöguræðu á Alþingi í kvöld. Leggja framsóknarmenn jafnframt til að opnað verði fyrir gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóðanna.
Lagði Birkir Jón í fyrsta lagi áherslu á að ráðast þyrfti í að létta þungum skuldabyrðum af heimilum.
Í öðru lagi leggur Birkir Jón til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta. Sjóðirnir ættu miklar eignir erlendis og gera þyrfti þeim kleift að selja þær og fjárfesta innanlands. Þannig gætu sjóðirnir keypt krónur á hagstæðu verði af erlendum aðilum.
Í þriðja lagi verði þegar samið við erlenda eigendur krónueigna. Talið væri að erlendir aðilar ættu eignir í íslenskum krónum sem nemi 350 til 500 milljörðum króna. Slíkir samningar væru liðir í að aflétta gjaldeyrishöft.
Komið verði á uppboðsmarkaði með krónur
Í fjórða lagi leggja framsóknarmenn til að settur verði upp uppboðsmarkaður með krónur. Seðlabankinn færi fyrir þeim markaði, sem myndi einnig flýta því að hægt væri að aflétta gjaldeyrishöftum.
Í fimmta lagi að lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl 2009.
Í sjötta lagi að erlendir kröfuhafar fengu hlut í nýju bönkunum. Til að koma móts við kröfuhafa mætti færa þeim hlut í bönkunum sem væri til jafns við skerðingu krafna þeirra.
Í sjöunda lagi leggðu framsóknarmenn til að sameining og endurskipulagning banka og fjármálastofnana verði hafin. Sameining tveggja ríkisbanka gæti verið fýsilegur kostur. Einnig mætti sameina einn ríkisbanka fjármálastofnun eða stofnunum í einkaeigu, sparisjóðum eða bönkum.
Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma
Í áttunda lagi er lagt til að ríkissjóður ábyrgist lán til skamms tíma á milli banka. Millibankamarkaður með krónur hefði nánast lagst af eftir bankahrunið.
Í níunda lagi er lagt til að peningamagn í umferð verði aukið. Eftirspurn í hagkerfinu væri í algjöru lágmarki og mikil verðbólga öðrum þræði afleiðing mikillar veikingar krónunnar.
Í tíunda lagi leggja framsóknarmenn til að skráning hlutafjár í erlendri mynt verði heimiluð. Slíkt myndi styðja við erlenda fjárfestingu og treysta innlenda hlutafjármarkað.
Í ellefta lagi leggja þeir til að drög að fjárlögum til ársins 2012 verði gerð og farið í þá vinnu hið fyrsta í ljósi þeirra gríðarlegu breytinga sem hafi orðið á umhverfi ríkissjóðs.
Samráðsvettvangi komið á fót
Í tólfta lagi að samráðsvettvangi verði komið á fót með ríkisstjórninni, útflutningsfyrirtækjum og öðrum atvinnugreinum, í því augnamiði að koma í veg fyrir að starfsemi einhverra þeirra fari úr landi.
Í þrettánda lagi leggur flokkurinn til að ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings. Mörg útflutningsfyrirtæki ættu í vanda, meðal annars vegna þess að tryggingar gefnar út af íslenskum bönkum væru ekki viðurkenndar erlendis.
Í fjórtánda lagi leggja framsóknarmenn til aukinn stuðning við rannsóknar- og þróunarstarf.
Í fimmtánda lagi leggur flokkurinn til aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn.
Stimpilgjöld verði afnumin
Í sextánda lagi að stimpilgjöld verði afnumin, þá meðal annars til að örva fasteignamarkaðinn.
Í sautjánda lagi að þeir sem eiga óskattlagðar eignir erlendis sem ekki hefur verið gerð grein fyrir verði gefinn kostur á að gefa þær upp og greiða af þeim skatta auk vaxta og hugsanlegra sekta innan ákveðins frests og gera þar með hreint fyrir sínum dyrum. Benda mætti á að Bretar og Þjóðverjar hefðu farið þessa leið.
Í átjánda og síðasta lagi að ráðist verði í niðurfellingu á hluta af skuldum heimila og atvinnufyrirtækja.
Sagði Birkir Jón formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, hafa fundað með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem hann hefði lagt fram rökstuðning framsóknarmanna um nauðsyn þess að hefja vaxtalækkunarferli. Þær viðræður væru bundnar trúnaði.
Ljóst væri að eiginfé fyrirtækja brynni upp í 18 prósent verðbólgu.