Verkafólk sem starfar á lægstu töxtum Starfsgreinasambandsins er knúið til að axla ábyrgð á fjármála- og bankakreppu, efnahagsástandinu, sem það ber enga ábyrgð á, til að koma til móts við atvinnurekendur, sem bera umtalsverða ábyrgð á efnahagshruninu með fyrri athöfnum sínum í skjóli frjálshyggjunnar. Þannig lýsir Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, þeirri ákvörðun stjórnar HB Granda að greiða hluthöfum sínum 8% arð á sama tíma og verið er að fresta launahækkunum til starfsfólks.
Skúli skrifar grein á vefsíðu Starfsgreinasambandsins og segir að í hlut eigi Kristján Loftsson, sem sé góðgæðingur LÍÚ og Ólafur Ólafsson, sem sé sjálftökumaður úr bankabólunni. „Þessir menn og aðrir gjafakvótamenn hafa orðið þess valdandi að gríðarlegt fjármagn hefur horfið úr íslenskum sjávarútvegi, m.a. með stórtækum arðgreiðslum á undaförnum árum sem fjármagnaðar hafa verið með lántökum. Sjávarútvegurinn hefur verið féflettur í þágu sérhagsmuna og græðgisvæðingar,“ segir Skúli. Greinin hafi því veikst.
„Svo koma þessir auðjöfrar upp í opið geðið á fólki og ætla enn að mjólka auðlindina í þágu sérhagsmuna sinna meðan þjóðinni blæðir af gjörðum þeirra,“ bætir hann við. Kvótakerfið verði að stokka upp og það strax.
Greinin á vefsíðu Starfsgreinasambandsins