„Auðvitað eru arðgreiðslur hjá öllum fyrirtækjum til skammar þegar þau geta ekki borgað launahækkun – þá skiptir engu hvort það er HB Grandi eða einhver annar,“ segir Skúlína Guðmundsdóttir, trúnaðarmaður starfsmanna hjá HB Granda á Akranesi. Eins og kunnugt er hefur stjórn fyrirtækisins lagt til 8% arðgreiðslur til hluthafa á sama tíma og verkalýðsfélög hafa samþykkt frestun umsaminna launahækkana verkafólks.
Skúlína segir þó ekki mikið talað um arðgreiðslurnar á vinnustaðnum. „Það eru eflaust einhverjir sem eru reiðir eða óánægðir en það er þá langt undir yfirborðinu. Mér finnst fólk aðallega vera hissa og undrandi yfir þessu. Hér þakkar fólk bara fyrir að hafa vinnu og að það sé nóg að gera, eins og ástandið er í landinu.“
Undir þetta tekur Jóhann Þór Sigurðsson, sem einnig er trúnaðarmaður, en gagnrýnir að ASÍ hafi ekki borið frestun launahækkana undir fólkið sem hún varðar.