Fréttaskýring: Útlit fyrir langþráða lækkun bílatrygginga

Líkt og flest önnur útgjöld heimilanna hafa bílatryggingar hækkað hressilega síðustu misserin. Þær hafa hins vegar hækkað mun meira en neysluvísitalan, eins og meðfylgjandi línurit sýnir. Frá aldamótum hafa ábyrgðar- og kaskótryggingar ökutækja hækkað vel yfir 90% á meðan neysluvísitalan hefur hækkað um rúm 70%. Er þarna miðað við vísitölur bifreiðatrygginga, sem reiknaðar eru út reglulega fyrir tryggingafélögin og Fjármálaeftirlitið, en hafa ber í huga að í þeim útreikningum er einnig tekið tillit til afskrifta, neyslu- og launavísitölu, bílaviðgerða, varahluta og bílaleigubíla.

Hækkun ábyrgðartrygginga hefur verið nokkuð jöfn en meiri sveiflur verið á þróun kaskótrygginga, eða húftrygginga bifreiða eins og þær eru nefndar á hinu ástkæra ylhýra. Fyrir rúmu ári varð meiri hækkun á kaskótryggingum og gamla góða góðærið spilar þar inn í. Bílaeign landsmanna tók kipp, tjónatíðni jókst og mikið var um dýra bíla í umferð, hina margumtöluðu lúxusbíla. Sem dæmi þá hafa kaskótryggingar hækkað um 26% frá ársbyrjun 2008, ábyrgðartrygging um 19% en neysluvísitalan hækkað um 18%.

Dugleg að fylgja vísitölunni

Runólfur hvetur bifreiðaeigendur einnig til þess að fylgjast vel með greiðslum sínum, flestir séu komnir með allar tryggingar heimilisins í einn pakka í bankaþjónustu, með einum gjalddaga á ári.

Tryggingafélögin benda á að kaskótryggingar hafi verið reknar með töluverðu tapi mörg undanfarin ár, sér í lagi á síðasta ári. Til viðbótar aukinni tjónatíðni og dýrari bílum er einnig bent á hækkun varahlutakostnaðar vegna breytinga á gengi íslensku krónunnar, aukinn fjölda bílbruna á síðasta ári og grun um aukin tryggingasvik.

Minna tjón og færri lúxusbílar

Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, tekur undir þetta: „Tjón minnka mikið nú um stundir og ef heldur fram sem horfir skapast færi á lækkunum iðgjalda,“ segir hann en vill ekki fullyrða hvenær félagið mun grípa til iðgjaldalækkana.

Ragnhildur Dögg Agnarsdóttir hjá TM bendir á að samsett tjónshlutfall í kaskótryggingum hafi verið mjög hátt, þ.e. útborgað tjón umfram iðgjaldatekjur. Hjá TM var hlutfallið 130% árið 2007 og fór í 143% á síðasta ári. „Við urðum að grípa til aðgerða á fyrri hluta ársins 2008 til að laga þessa afkomu en höfum ekki hækkað gjaldskrána síðan um mitt síðasta ár. Við vonumst til að minni umferð og færri tjón bæti skelfilega afkomu á þessum lið,“ segir hún.

Dæmi um hækkun

Febrúar 2007

  • Toyota Yaris 95.200 krónur
  • Nissan Pathfinder 108.950 krónur

Febrúar 2009

  • Toyota Yaris 124.500 krónur
  • Nissan Pathfinder 144.200 krónur

Verðdæmi um ökutækjatryggingar fyrir bíla á höfuðborgarsvæðinu, í tengslum við aðrar tryggingar hjá sama félagi. Sjálfsábyrgð í kaskó er 50 þúsund krónur í febrúar 2007 en 90 þúsund krónur í febrúar 2009. Tryggingar fyrir Yaris hafa á tveimur árum hækkað um 30,8%, auk hækkunar á sjálfsábyrgð, og greiðslur af jeppanum hækkað um 32,4%. Dæmið er fengið frá FÍB.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka