Vill fá kostnað við persónukjör

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Valdís

Frumvarp til breytinga á kosningalögunum var tekið til umræðu í allsherjarnefnd Alþingis í gærmorgun. Í frumvarpinu er sem kunnugt er gert ráð fyrir því að opnað verði fyrir möguleika á persónukjöri til Alþingis, þ.e. að flokkarnir geti boðið fram óraðaða lista og kjósendur geti ráðið röð frambjóðenda á listunum.

Á fundunum óskaði Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins eftir því að það yrði reiknað út hve mikið kostnaður ríkissjóðs myndi aukast við það að taka upp þetta fyrirkomulag. Sigurður Kári sagði í samtali við Morgunblaðið, að kostnaður ríkisins vegna kosninganna yrði um 100 milljónir, miðað við óbreytt fyrirkomulag. Fyrir lægi að þessi kostnaður myndi aukast umtalsvert ef persónukjör yrði tekið upp. Það myndi útheimta meira mannahald og mun meiri vinnu við talninguna.

Fjölmargir gestir komu á fund nefndarinnar í gærmorgun. Meðal annars komu á fundinn höfundar frumvarpsins, fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti og Sambandi sveitarfélaga og fólk sem starfað hefur lengi við framkvæmd alþingiskosninga. Sagði Sigurður Kári að meðal þessa fólks hefðu verið skiptar skoðanir um það hvort rétt væri að gera svo viðamiklar breytingar á kosningalöggjöfinni með svona skömmum fyrirvara. Sigurður Kári segir að það sé sín skoðun að þetta sé óheppilegt. Utankjörstaðakosning sé hafin og það sé ankannalegt að fólk sé nú byrjað að kjósa eftir allt öðrum reglum en verði hugsanlega í gildi þegar sjálfur kjördagurinn rennur upp. Þá liggi fyrir álit frá ÖSE og Evrópuráðinu, þar sem varað sé við breytingum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert