Vill rifta samkomulagi um frestun samninga

Þór Sigfússon, formaður SA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, tókust …
Þór Sigfússon, formaður SA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, tókust í hendur eftir undirritun samkomulags um frestun kjarasamninga 25. febrúar sl.

„Í ljósi þessara frétta þá tel ég að samninganefnd Alþýðusambands Íslands eigi að ganga á fund Samtaka atvinnulífsins og rifta samkomulagi sem gert var 25. febrúar um frestun kjarasamninga fram á sumar,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags og sviðsstjóri matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands.

Aðalsteinn vísar þar til frétta af arðgreiðslum HB Granda til eigenda á sama tíma og ekki var talið svigrúm til að greiða fiskvinnslufólki áður umsamdar launahækkanir.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segir í pistli á heimasíðu félagsins að full ástæða sé til að kanna lagalegar forsendur fyrir riftun samkomulags um frestun kjarasamninganna. Vilhjálmur segir það móðgun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl. Hann hefur sent stjórn HB Granda bréf með áskorun um að greiða umsamdar launahækkanir strax og sýna þannig í verki að góð fyrirtæki eru ekki rekin með hagnaði nema með góðum starfsmönnum.

Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn stéttarfélag í Þingeyjarsýslum, Verkalýðsfélag Þórshafnar, AFL starfsgreinafélag á Austurlandi, Drífandi í Vestmannaeyjum og Verkalýðsfélag Vestfjarða voru öll mótfallin frestun kjarasamninganna án þess að fyrir lægi hvert framhaldið yrði. Jafnframt voru rök sexmenninganna þau að til væru fyrirtæki sem gætu staðið undir umsömdum launahækkunum, einkum fyrirtæki í útflutningi.

Formenn félaganna voru gagnrýndir harkalega en fleiri innan forystu ASÍ virðast nú hafa skipt um skoðun. Þannig sendi forseti ASÍ frá sér ályktun í gær og lýsti furðu á arðgreiðslum HB Granda. Forseti ASÍ hvatti HB granda jafnframt til að standa við umsamdar launahækkanir í ljósi góðrar afkomu.

„Við fögnum því auðvitað að menn séu komnir á sömu skoðun og við, mennirnir sem skömmuðust hvað mest í okkur. En í tillögu stjórnar HB Granda felast skýr skilaboð um hver staðan í sjávarútvegi er og það er nú bara stór hluti okkar fólks sem vinnur í greininni. Og við getum ekki horft upp á að menn ætli að losa sig undan því að greiða kjarasamningsbundnar launahækkanir á sama tíma og þeir ætla að greiða eigendum arð.“ segir Aðalsteinn Baldursson.

Hann segir stöðu fyrirtækja innan vébanda Samtaka atvinnulífsins misjafna en gagnrýni félaganna sex hafa m.a. snúist um tryggingar.

„Við vildum alltaf að gengið yrði frá þessum hækkunum með tryggari hætti en gert var, hvenær þær kæmu og með hvaða hætti. Við fengum aldrei svör við því hvort hluti umsaminna hækkana gæti komið 1. mars og afgangurinn í sumar. Samkomulagið sem gert var snerist aðeins um að fresta samningum fram á sumar. Hvað tekur við þá veit enginn. Það er ekkert fast í hendi og ég er ekki bjartsýnn á að það verði frekar svigrúm þá,“ segir Aðalsteinn.

Umfjöllun formanns Verkalýðsfélags Akraness um riftun kjarasamninga

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert