Guðjón A. Kristjánsson og Grétar Mar Jónsson, þingmenn Frjálslynda flokksins, lögðu í gær til í þingfrumvarpi að þak yrði sett á vísitölutengd, verðtryggð húsnæðislán, þar sem miðað yrði við 5% hækkun frá síðustu áramótum.
Taldi Guðjón Arnar tillöguna afar brýna, enda væri ekki hægt að bíða áfram eftir því að almenningur missti eignir og yrði gjaldþrota.
Leggja flokksbræðurnir til að mismunurinn, greiðslur umfram 5% hækkun vísitölunnar, leggist inn á sérstakan biðreikning.
Biðreikningnum sé ætlað að taka allt umfram 5% og þar með kúfinn af mestu hækkunum. Hér væri á ferð frystingarákvæði í eitt ár. Sá tími myndi duga fyrir næstu stjórn til að taka á vanda húsnæðiseigenda, með það að markmiði að afskrifa lán sem safnast hefðu á biðreikninginn.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að útlit væri fyrir að vísitalan myndi ekki hækka um 5%. Þá varaði Pétur við afleiðingum þess fyrir lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og lífeyrisþega að afnema verðtrygginguna, eins og þingmenn Frjálslynda flokksins hefðu lagt til.