Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra telur brýnt að löggjöf um hljóðvarp, sjónvarp og prentmiðla verði samræmd.
„Ég er búin að ræða við dómsmálaráðherra um möguleikann á að við myndum setja í gang samráðshóp og dómsmálaráðherra tók þessu vel,“ segir Katrín. Lög um prentrétt heyra undir dómsmálaráðherra en lög um hljóðvarp og sjónvarp heyra undir menntamálaráðherra.
„Miðað við það sem mér skilst er þetta ekki aðskilið á þennan hátt í nágrannalöndum okkar. Það er ýmislegt sem komið hefur upp um starfsskilyrði blaðamanna sem ýtir á eftir að þetta verði tekið upp,“ segir Katrín.