Atkvæðagreiðslu um breytingar á tollalögum, lögum um vörugjald og virðisaukaskatt, með síðari breytingum, var frestað á Alþingi fyrir stundu vegna fámennis í þingsalnum. Reynt verður að greiða atkvæði um málið innan skamms.
Efnahags- og skattanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Snorra Olsen frá tollstjóra, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins og Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu.
Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, ríkisendurskoðun, Seðlabanka Íslands, tollastjóra, Viðskiptaráði Íslands, Félagi löggildra endurskoðenda og sameiginlega frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
Í frumvarpinu er lagt til að aðilar sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum geti óskað eftir breytingu á fyrirkomulagi gjalddaga vegna uppgjörstímabila á árinu 2009.
Einnig er lögð til breyting sem á að tryggja fullan innskattsrétt þrátt fyrir umræddar breytingar á fyrirkomulagi aðflutningsgjalda.
Að því gefnu að breytingin verði samþykkt ræddi nefndin um stöðu þeirra greiðenda sem að fullu hafa staðið skil á aðflutningsgjöldum sem koma áttu til greiðslu 15. mars 2009. Nefndin leggur til að frumvarpið gildi afturvirkt frá og með þeim degi og að umræddir aðilar geti farið fram á hlutfallslega endurgreiðslu og þar með hagað greiðslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.