Eva Joly hreinsar út á Íslandi

Eva Joly.
Eva Joly. Ómar Óskarsson

Veiðar á þeim sem bera ábyrgð á efnahagshruni Íslands eru hafnar fyrir alvöru. Spillingarhausaveiðarinn Eva Joly á að hreinsa þar út. Ísland er nú á hraðri leið frá því að vera bananalýðveldi.

Á þessa lund hefst frásögn danska fréttavefjarins business.dk af framvindu bankahrunsins á Íslandi.

„Ekki er lengur einungis talað um óábyrg útlán banka, stefnu stjórnvalda og helst til of áhættusækna framkvæmdastjóra. Nei, nú snýst umræðan um hreinan og beinan þjófnað,“ segir í greininni, þar sem fjallað er um aðkomu Evu Joly að íslenskum rannsóknum á bankahruninu. Sagt er frá því að hún hafi mætt í viðtal hjá ríkissjónvarpinu og talað þar tæpitungulaust um ástandið á Íslandi. Þrátt fyrir það hafi Íslendingar ekki móðgast, heldur krafist þess að hún yrði ráðin til þess að taka hér til.

Lýst er atburðarásinni frá bankahruni til búsáhaldabyltingar, ríkisstjórnarskipta og stjórnarskipta í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. „Þetta er samt ekki nóg til að lægja kröfur fólksins um að þeir sem beri ábyrgð axli hana. Langt í frá.“

Á meðal þeirra sem fjallað er um í greininni er hinn sérstaki saksóknari, Ólafur Þór Hauksson. Sagt er frá því að enginn hafi upphaflega viljað sækja um starfið og því hafi það komið í hlut dómsmálaráðuneytisins að fá Ólaf Þór til verksins. Ástæðan fyrir því að enginn vildi sækja um sé sú að allir þekki alla í íslensku samfélagi og nánast ekkert bil sé á milli hugsanlegra brotamanna, eftirlitsstofnana og stjórnmálamanna. Flestir hafi séð það fyrir sér að þeir gætu aldrei uppfyllt kröfurnar sem gerðar verði til embættisins.

Þótt Ólafur Þór sé löglærður og hafi um árabil sinnt störfum sínum af heilindum sem sýslumaður á Akranesi, sé hann ekki kjörinn í starfið. Business hafi fjallað um hann og rætt við hann, en Ólafur hafi sagt að helstu meðmælin með honum í starfið væru þau að hann sé vanur því að starfa í fámennu samfélagi þar sem allir þekki alla. Þessum sýslumanni sé nú ætlað að taka upp baráttu við rússneska ólígarka, sjeik frá Katar, volduga kaupsýslumenn frá Bretlandi og stóra íslenska fjárfesta, sem hafi líklega notað skattaskjól til að koma háum fjárhæðum undan.

Eva Joly hafi boðið fram hjálp sína þegar henni varð ljós þessi styrksmunur á ákæruvaldinu og hugsanlegum brotamönnum á Íslandi.

„Það krefst reynslu að vita hvernig maður tekst á við bankarannsóknir. Maður þarf  að vita hvar maður á að leita og maður þarf að vita hvernig alþjóðleg fyrirtæki vinna,“ útskýrir Joly fyrir blaðamanni Berlingske Tidende. „Það verður nauðsynlegt að afla sönnunargagna á Íslandi, áður en maður getur gert sér vonir um að fá aðstoð frá öðrum löndum,“ segir hún. Hún er, svo ekki sé meira sagt, full efasemda um nálgun hins sérstaka saksóknara og fjögurra aðstoðarmanna hans, að fylgjast fyrst um sinn aðeins með því sem aðrar stofnanir eru að gera. „Það er stór misskilningur að bíða með eiginlega rannsókn, þar til maður er kominn með mál í hendurnar. Maður þarf að byrja út frá gruninum einum og rannsóknina þarf að gera með öllu frá rannsókn á uppgjörum fyrirtækja til húsleita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert