„Hreinlega siðlaust“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ómar

„Það er engin launung á því að þessi tillaga stjórnar HB Granda fer algerlega fyrir brjóstið á okkur, það er hreinlega siðlaust að gera þetta við þær aðstæður sem eru núna í atvinnulífinu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, spurður út í tillögur stjórnar HB-Granda um hundruð milljón kr. arðgreiðslur til eigenda.

„Annað hvort er að draga þetta til baka eða þá minnsta kosti að starfsmenn fyrirtækisins fái að njóta sinna launahækkana því uppleggið hjá atvinnurekendum að óska eftir því að við förum til viðræðna um að skapa svigrúm var vegna þess að það væru fjárhagslegir erfiðleikar í atvinnulífinu og uppsagnir og atvinnumissir sé vegna þess að fyrirtækin séu í vanda. Að fyrirtæki taki þetta síðan sem tilefni til að borga út arð er náttúrulega algerlega siðlaust, það verður að segjast eins og er,“ segir Gylfi.

„Siðlaust framferði stjórna stórfyrirtækja í landinu eins og þessa, sem ber vott um að það sé bæði verið að nota sömu aðferð við að fegra afkomu sína og eignir að skrúfa upp eignir á mjög óraunverulegan hátt, til að leggja grunn að því að geta slitið arð út úr fyrirtækjunum. Við sjáum hvað gerðist með BYR, þeir tóku út 13,5 milljarð fyrir ári síðan í arð og koma síðan á brauðfótum til ríkisins og skattborgarar eiga að leggja þeim til 11 milljarða á ár til að borga þeim fyrir horn. Og hvenær kemur Grandi aftur til okkar og biður okkur um aðstoð,“ spyr Gylfi.

Hann segir að þetta framferði fyrirtækjanna, að fara í endurreisn atvinnulífsins með sama óábyrga hættinum, það komi ekki til greina af hálfu ASÍ. Það komi ekki til greina að umræða um endurreisn íslensks atvinnulífs verði á þessum forsendum.

„Þannig að það getur vel verið að þetta verði til þess að það verði einfaldlega slitið samskiptum aðila. Við munum ekki sætta okkur við það að fyrirtækin verði þurrkuð upp af fé til að eigendur þeirra geti haft það svolítið betra og okkar félagsmenn sitji úti annað hvort atvinnulausir eða án launahækkana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka