Slökkvilið var kallað út að Reykjanesbraut í nágrenni Reykjanesbæjar í nótt, þar sem jeppabifreið stóð í ljósum lögum. Talið er að bíllinn sé algerlega ónýtur og leikur grunur á að um íkveikju hafi verið að ræða. Flakið var flutt til Keflavíkur til frekari skoðunar
Að öðru leyti var nóttin róleg hjá flestum lögregluembættum á landinu, nema hvað brotist var inn í heilsulind við götuna Hrísalund á Akureyri í nótt. Lögregla fékk tilkynningu um innbrotið um klukkan fjögur í nótt. Brotin var frekar stór rúða á hlið hússins og þar farið inn. Talið er að einungis hafi verið stolið áfengi úr kæli sem þar er inni. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins, sem er í rannsókn.