Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um íslenskt merki um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga, sem kynnt var fyrir fullum sal gesta á sjávarútvegssýningunni í Boston fyrr í vikunni. Almenna merkið var fyrst kynnt á Íslensku sjávarútvegssýningunni í byrjun október. Það merki er án vottunar, en vísar til íslensks uppruna og yfirlýsingar um ábyrgar fiskveiðar. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.
Fram kemur að merkið skírskoti til íslensks uppruna afurða. Mörg markaðssvæði leggi áherslu á að fá skýra upprunatengingu við Ísland. Merkið sé í senn markaðstæki fyrir íslenska framleiðendur sjávarafurða og svar við kröfum markaða um að sjávarafurðir komi úr fiskistofnum, sem nýttir séu á ábyrgan hátt. Merkið sé samstarfsverkefni hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi sem notið hafi stuðnings opinberra aðila.