Þáverandi framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins upplýsti stjórn sjóðsins í janúar sl. um að komið hefði í ljós að sjóðurinn hefði verið fyrir utan fjárfestingarheimildir vegna mistaka sem áttu sér stað fyrst í mars á síðasta ári. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins vegna þess að fjármálaráðuneytið skipaði umsjónaraðila yfir stjórn sjóðsins í gær.
Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um fjárfestingastefnu sjóðsins en kemur ekki að ákvörðunum varðandi einstakar fjárfestingar.
Aðallega fjárfest í Kaupþingi banka fyrir mistök
„Sjóðurinn er með rekstrarsamning við Landsbankann en samkvæmt honum sér hann um daglegan rekstur sjóðsins. Varsla og viðskiptaumsjón Landsbankans annast skil á skýrslum til FME og annarra opinberra aðila.
Í þessum skýrslum koma fram upplýsingar um hlutfall stærstu útgefanda í eignasafni lífeyrissjóðsins. Innra eftirlit eignastýringarsviðs hefur einnig það hlutverk að taka út stöðu sjóðsins og kanna hvort hann starfi innan þeirra marka sem sett eru í fjárfestingarstefnum og lögum um lífeyrissjóði.
Einnig annast innri endurskoðun bankans innra eftirlit hans. Rétt er að árétta að sjóðstjóri hefur ekki heimild til að vita nákvæmlega um eignastöðu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða rekstrarfélaga, hann verður að reiða sig á aðra aðila sem geta reiknað út stöðu sjóðsins. Þessi tilhögun hefur verið viðhöfð í meira en áratug hjá eignastýringarsviði Landsbankans og reynst vel fram til þessa.
Á stjórnarfundi þann 14. janúar sl. upplýsti þáverandi framkvæmdastjóri sjóðsins stjórnina um að komið hefði í ljós að sjóðurinn hefði verið fyrir utan fjárfestingarheimildir vegna mistaka sem áttu sér stað fyrst í mars á síðasta ári. Það félag sem þetta á aðallega við er Kaupþing banki og einnig koma fram óveruleg frávik á takmörkuðum tímabilum hjá Samson eignarhaldsfélagi, Baugi og Atorku. Jafnframt kom fram að um mannleg mistök væri að ræða og að Landsbankinn væri tryggður ef tjón hefði orðið vegna þessa.
Stjórn sjóðsins óskaði strax eftir því við Landsbankann að þessi mistök yrðu leiðrétt.
Stjórn sjóðsins hefur lagt sig fram um að hafa góð samskipti við FME og því koma þessar aðgerðir henni á óvart.
Stjórn sjóðsins er ekki kunnugt um nein önnur atriði sem geta gefið tilefni til þeirra aðgerða sem yfirvöld hafa gripið til.
Stjórn sjóðsins mun aðstoða sérstakan saksóknara og umsjónaraðila sjóðsins í þeirra störfum.
Þessar aðgerðir hafa engin áhrif á eignastöðu Íslenska lífeyrissjóðsins eða réttindi sjóðfélaga," að því er segir í yfirlýsingu frá stjórn sjóðsins.