Skilorð fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í morgun karlmann í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir kynferðislega áreitni. Maðurinn sem er heilaskaðaður eftir slys, áreitti andlega fatlaða konu en bæði bjuggu í sama húsi þegar brotið var framið. Ennfremur var manninum gert að greiða konunni 200 þúsund krónur í miskabætur.

Verknaðurinn var framinn í ágúst í fyrra. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa káfað á brjóstum konunnar utanklæða og innanklæða á fótlegg hennar og báðum innanverðum lærum. Maðurinn játaði brot sín að öðru leyti en því að hann sagðist hafa káfað á öðru læri konunnar innanverðu. Ákæruvaldið breytti verknaðarlýsingu í samræmi við það.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafði hlotið heilaskaða í slysi fyrir 30 árum, auk varanlegra líkamlegra áverka. Sérfræðingur mat hann sakhæfan og taldi hann að ekkert hefði komið fram sem rennt gæti stoðum undir að ákærði geti ekki talist sakhæfur.

Maðurinn lýsti iðrun og hefur beðið konuna afsökunar á brotinu en áður höfðu komið upp svipuð tilvik og maðurinn þá lofast til að láta af áreitni sinni eftir að rætt var við hann.

Í dómnum segir ennfremur að maðurinn hafi gert sér fulla grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Konan sem brotið var gegn, býr við andlega fötlun og segir dómurinn að vegna hennar hafi konan verið sérstaklega varnarlaus gagnvart háttsemi ákærða. Þau ákærði þekkjast vel og búa í sama húsi og ríkti vinátta á milli þeirra. Verður hins vegar ekki séð að konan hafi með nokkru móti gefið ákærða til kynna að honum væri heimil sú kynferðislega áreitni sem hann samkvæmt ákæru viðhafði gegn henni. Maðurinn hefur sjálfur ekki haldið því fram að svo hafi verið.

Dómurinn segir manninn hafa vitandi vits nýtt sér varnarleysi konunnar og það að hann var henni kunnugur og að hún hafi borið traust til hans af þessum sökum.

Dómurinn segir að framkoma mannsins gagnvart konunni þyki sérlega vítaverð og verði talið að hann hafi notfært sér hrekkleysi hennar, vináttu og varnarleysi til að áreyta hana gróflega á þann hátt sem í ákæru greinir.

Dómurinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert