Sjötíu fyrrverandi viðskiptavinir Landsbankans í Lúxemborg á Spáni hafa höfðað mál á hendur fyrrverandi stjórn bankans fyrir spönskum dómstólum. Þeir eru ellilífeyrisþegar sem tóku eignalán hjá bankanum, sumir þeirra í gegnum Lex Life sem var einskonar tryggingasjóður, með veði í húsum þeirra.
Mál fólksins á Spáni er ekki það eina sem höfðað hefur verið vegna eignalánanna. Stjórnarmönnunum hefur einnig verið stefnt í Lúxemborg fyrir að misnota traust viðskiptavinar bankans þar ytra fyrir fall hans. Viðskiptavinurinn telur að bankinn hafi tekið hagsmuni bankans fram yfir sína. Málið verður tekið fyrir 20. apríl. Það var þingfest 6. janúar, samkvæmt lögmanni hans, Patrick Goergen.
Stjórnendurnir eru þau Elín Sigfúsdóttir, Sigurjón Árnason, Halldór Kristjánsson, Gunnar Felixson, Gunnar Thoroddsen og Torben Bjerregard Jensen.
Lögmaður þeirra er Jim Penning. Hann vildi ekki ræða málið þegar haft var samband við hann.
Viðskiptavinirnir sem tóku eignalánin hafa tapað háum fjárhæðum. Bankinn greiddi fjórðung lánsins út en stefnan var að hann ávaxtaði afganginn í dreifðum söfnum alþjóðlegra hluta- og skuldabréfa.
Lögmannsstofan MEP&F stefnir stjórn bankans fyrir hönd skjólstæðinga sinna og var málið þingfest 21. janúar, samkvæmt lögmanninum Elenu López.
„Áhættan af lánunum var aldrei rædd við eftirlaunaþegana,“ fullyrðir hún. „Aldrei var sagt frá háum umboðslaunum.“ Það stangast á við orð Gunnars Thoroddsens, fyrrverandi framkvæmdastjóra bankans, sem sagði að viðskiptavinunum hefði verið fullkunnugt um áhættuna.
López segir að einhver tími geti liðið þar til málin verði flutt fyrir dómi því nú þurfi að safna upplýsingum, fólk þurfi að gefa vitnisburð sinn og lögreglan að rannsaka ásakanirnar.
Hún segir að fólkið á Costa Blanca-svæðinu hafi að meðaltali tekið um 350 þúsund evra lán en 500 þúsund í kringum Costa del Sol.