Tekist á um mannréttindamál

Fyrirspurnin snerist um úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.
Fyrirspurnin snerist um úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Árni Sæberg

Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, kvaðst í fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra í dag ekki trúa öðru en að ríkið stefndi að því að gera samninga við sjómennina tvo sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna taldi ríkið hafi brotið á í frægum úrskurði. 

Var niðurstaða nefndarinnar sú að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið bryti í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Rifjaði Grétar Mar upp að hér væri á ferð 14 til 15 mánaða gamalt mál og lék honum forvitni á að heyra frá sjávarútvegsráðherra hvernig þessu máli liði.

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði því til að þegar málið hafi komið upp hafi hann verið í stjórnarandstöðu.

Afstaða hans hefði þá verið sú að stórnvöld ættu að fara í efnislegar viðræur við mannréttindanefndina um málið og þar með bregðast við úrskurðinum með öðrum hætti en stjórnin bauð upp á.

Í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar hefðu gengið bréf á milli hennar og nefndarinnar.

Eftir bankahrunið hefði henni hins vegar verið gerð grein fyrir því að stjórnvöld væru önnum kafin vegna þess alvarlega ástands sem við blasti í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.

„Ég gef bara hreinskilið svar um að ég hef ekki haft tíma til þess að setja mig rækilega í málið," svaraði Steingrímur.

Grétar Mar gagnrýndi þá ráðherrann fyrir að svara því svo til að það væri svo mikið að gera að ekki væri hægt að virða mannréttindi, á sama tíma og ríkið væri að setja 14 milljarða í tónlistarhús.

Sorglegt væri að vita til þess að ríkisstjórnin gæti ekki snúið sér að því verki að leiðrétta mannréttindabrot.

Slík vinna væri hluti af því mikla uppgjöri sem þyrfti að gera á „nýju Íslandi“.

Steingrímur J. tók þá til máls og frábað þar ásakanir um að hann hefði ekki tíma til að virða mannréttindi.

Það væri annarra í stjórnkerfinu að fjalla um mögulegar bótagreiðslur en sjávarútvegsráðerra. Eðlilegt væri að ferlið færi í gegnum ríkislögmann eða aðra sem hafa um málið að segja.

Sakaði stjórnina um kjarkleysi

Þess má geta að Steingrímur J. skrifaði í júnímánuði 2008 harðorða grein í Morgunblaðið um viðbrögð þáverandi ríkisstjórnar við niðurstöðunni. Sakaði hann stjórnina um kjarkleysi.

Í niðurlagi greinar hans sagði:

„Í  ljósi þess að ekkert hefur komið frá ríkisstjórninni um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og ekkert samráð verið haft, birtum við Vinstri græn okkar eigin tillögur að svari í síðustu viku, ásamt greinargerð eða skýrslu um álit mannréttindanefndarinnar. Þótt Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi lengi talað fyrir grundvallarbreytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem samrýmast fullkomlega niðurstöðu mannréttindanefndarinnar, þá er flokkurinn engu að síður reiðubúinn til að skoða jafnframt aðrar vænlegar leiðir sem fullnægt geti kröfum nefndarinnar og útilokar engar þeirra fyrirfram.

Eitt af því sem við leggjum til er að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt á þann veg að jafnræðishugtakið komi inn í markmiðshluta laganna, þ.e. 1. greinina. Samhliða því þurfa íslensk stjórnvöld að hefja heildarendurskoðun fiskveiðistjórnkerfisins og tengdra þátta og gera m.a. kleift að hefja innköllun aflaheimilda.

Endurráðstöfun og útdeilingu á nýjan leik verður að gera á nýjum grunni þar sem jafnræðis er gætt við úthlutunina í samræmi við álit mannréttindanefndarinnar. Um leið er ljóst að gæta verður meðalhófs og sanngirni gagnvart núverandi handhöfum, veita eðlilegan aðlögunartíma að breytingum og forðast kollsteypur.

Til að flýta fyrir og hefja þegar aðlögun að framtíðarskipan mála leggjum við til að stjórnvöld tryggi með lögum að unnt verði frá og með næsta fiskveiðiári að halda eftir hluta þeirra aflaheimilda sem leigðar eru innan ársins (t.d. 5%), þegar til endurúthlutunar kemur að ári. Þá leggjum við líka til að fest verði í lög að skapist forsendur til að auka heildarafla í einstökum tegundum umfram jafnstöðuafla allmargra undangenginna ára verði slíkt svigrúm notað að hluta eða öllu leyti til að flýta innleiðingu hins nýja stjórnunarfyrirkomulags.

Þetta eru „raunhæfar og aðfararhæfar útbætur“ – svo notað sé orðalag mannréttindanefndarinnar – og Vinstri græn krefjast þess að svar íslenskra stjórnvalda innihaldi áform um efnislegar breytingar af þessum toga. Ef það er hugmyndafátækt sem flækist fyrir ríkisstjórninni í þessum efnum er henni frjálst að taka upp tillögur okkar.

Sé það kjarkleysi eða verkfælni sem hrjáir ríkisstjórnina kemur það ekki á óvart. Ef bak við málamyndasvar leynist hins vegar sú stefna núverandi ríkisstjórnar að verja kerfið algerlega óbreytt versnar í því.“ 

Grétar Mar Jónsson.
Grétar Mar Jónsson.
Steingrímur J. Sigfússon vísaði til mikilla anna í stórnkerfinu eftir …
Steingrímur J. Sigfússon vísaði til mikilla anna í stórnkerfinu eftir bankahrunið. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert