Klukkan tólf þurfti að fresta atkvæðagreiðslu á Alþingi vegna slæmrar mætingar þingmanna.
Fyrst á dagskrá þingfundar var frumvarp um kosningar til alþingis en þá voru örfáir í þingsal og ekki sá sem átti að mæla fyrir nefndaráliti um frumvarpið. Salurinn var nánast tómur. Þá tóku við atkvæðagreiðslur og þingmenn tóku að streyma í salinn. Samt þurfti að fresta atkvæðagreiðslu vegna þess hversu margir voru fjarverandi.
Þetta er ekki eina dæmið að undanförnu þar sem það hefur þurft að fresta þingfundum vegna slæmrar mætingar en hún þótti afar dræm meðan prófkjörsbaráttan stóð sem hæst. Guðbjartur Hannesson þingforseti segir að það eigi að drífa mál áfram og þingmenn verði að gera svo vel og mæta og taka þátt í afgreiðslu mála. Hann segir að því verði komið á framfæri við formenn þingflokka að þeir hafi aga á sínu fólki.