Stjórn HB Granda dragi tillögur um arðgreiðslur til baka

Merki Alþýðusambands Íslands.
Merki Alþýðusambands Íslands.

Miðstjórn ASÍ telur tillögu stjórnar HB-Granda um hundruð milljón króna arðgreiðslur til eigenda siðlausa við núverandi aðstæður og skorar á stjórnina að draga tillöguna til baka ella greiða starfsfólki áður umsamdar launahækkanir án tafar. Þetta kemur fram í ályktun frá miðstjórninni.

Þar segir jafnframt:

„Tillagan setur samning um frestun endurskoðunar kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins í uppnám en rökstuðningur Samtaka atvinnulífsins fyrir frestuninni var að fyrirtækin hefðu ekki fjárhagslega burði til að standa við umsamdar tímasetningar launahækkana.  Verkalýðshreyfingin hefur lýst vilja sínum til að ræða við fulltrúa atvinnurekenda um alvarlega stöðu atvinnulífsins til að fresta þess að koma í veg fyrir enn meira atvinnuleysi og kaupmáttarskerðingu en það kemur ekki til greina að launafólk taki á sig byrðar til þess að skapa svigrúm fyrir eigendur fyrirtækjanna til að taka út svimandi háan arð.

„Það vekur ugg að í ársreikningum HB-Granda er beitt sömu aðferðum við að blása út eignir og beitt var í fjölmörgum fyrirtækjum og fjármálastofnunum, sem hrunið hafa á síðustu mánuðum. Óefnislegar eignir eru metnar langt um fram raunverulegt verðmæti, sem verður til þess að verðmæti og eignastaða fyrirtækisins lítur út fyrir að vera mun betri en raun er.

Miðstjórn ASÍ áréttar sérstaklega að verkalýðshreyfingin mun ekki líða að engu sé breytt í siðferðilegri og samfélagslegri ábyrgð stjórnenda fyrirtækjanna, þrátt fyrir hrun efnahagslífsins, né að fyrirtæki haldi áfram að draga upp ranga mynd af afkomu sinni og skapa þannig möguleika á að taka út arð.  Fylgst verður með reikningsskilum fyrirtækja en spurningin er hver ábyrgð löggiltra endurskoðenda er á slíkum reikningsskilum.  Fyrirtækin bera samfélagslega ábyrgð og verða að axla hana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert