Tvö atkvæði á hvern mann

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á fundinum í kvöld.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á fundinum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Framsóknarmenn ætla sér stóra hlut í kosningunum í vor og eru þegar byrjaðir á kosningabaráttu sinni. Á fundi sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica hótel í kvöld kom fram frá forystumönnum flokksins að æskilegt væri ef flokksmenn gætu náð að útvega tvö atkvæði á hvern framsóknarmann.

Félagsmenn í Framsóknarflokknum eru rúmlega tólf þúsund og telja forystumenn flokksins það raunhæft að hver og einn framsóknarmaður reyni eftir fremsta megni að deila boðskap flokksins þannig að tvö atkvæði á hvern framsóknarmann, til viðbótar við atkvæði hvers skráðs framsóknarmanns, myndu skila sér í kjörkassann 25. apríl.

Í máli formanns flokksins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kom fram að kosningabaráttan væri hafin. Forystumenn flokksins eru þegar farnir að vinna með auglýsingastofunni Góðu fólki að auglýsingaherferð vegna kosninganna.

Sigmundur lýsti yfir vonbrigðum með það að ekki hefði tekist enn að koma heimilum og fyrirtækjum nægilega vel til hjálpar í því erfiða ástandi sem nú ríkti í efnahagsmálum. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefði brugðist. Talaði hann fyrir því að hugmynd Framsóknarflokksins um að afskrifa 20 prósent skulda heimila og fyrirtækja væri besta, og í raun ódýrasta leiðin til þess að rétta af efnahag landsins. Hugmyndin væri sú sem einn virtasti hagfræðingur heims, Nouriel Roubini, hefði lagt til að þjóðir í miklum vanda eftir „eignabólur“ gripu til. Sigmundur Davíð sagði að flokkurinn væri að vinna að því að fá hann til landsins til að kynna hugmyndir sínar, auk þess sem Framsóknarflokkurinn ætlaði sér kynna tillögur sínar betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert