Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir að frá því í apríl í fyrra hafi ríflega 1.300 starfsmönnum fjármálafyrirtækja verið sagt upp störfum. Þetta samsvari 25% fækkun í greininni. Straumur hefur tilkynnt um uppsögn 90 af 110 starfsmönnum bankans á Íslandi.
Friðbert segir að í morgun hafi verið tilkynnt um uppsögn 45 starfsmanna Straums á Íslandi frá og með 31. mars og 45 til viðbótar verður sagt upp í vor eða sumar en nákvæmari tímasetning liggur ekki fyrir að svo stöddu.
Útlit fyrir mikinn landflótta
Að sögn Friðberts vill svo til, að á sama tíma og stjórnvöld tali um að menntun skipti öllu og mikilvægt sé að fólk mennti sig, þá er stærsti hluti þeirra 1.300 sem hefur verið sagt upp hámenntað fólk. Með allt frá BA-gráðum upp í doktorsmenntun. Þetta fólk komi úr öllum greinum, ekki einungis fjármálafræðum. Þetta er hámenntað fólk á öllum sviðum og flestir eru á aldrinum 25 til 40 ára, segir Friðbert.
„Það er hálfpartinn verið að hrekja stóran hluta þessa fólks úr landi," segir Friðbert en að hluti þessa fólks, um það bil þriðjungur, hafi hellt sér út í framhaldsnám. Síðan hefur einhver hluti þeirra, sem betur fer, stofnað eigin rekstur, segir Friðbert.
Hann segir að stór hluti hópsins sem hefur verið sagt upp sé farinn úr landi eða er að huga að því að flytja af landi brott. „Eina sem ríkisstjórnin hugsar um er að leggja vegi, bora göng eða byggja álver. Þetta er kannski ekki hópurinn sem fer að vinna þar. Þannig að manni finnst að við séum að falla í sömu gryfju og Finnar féllu í á fyrstu tveimur þremur árunum eftir að kreppan skall þar á."
Telur að staðið verði við greiðslu launa
Hann telur nær að leggja meiri áherslu á nýsköpun og að kraftar þessa fólks verði nýttir þar.
Friðbert segist hafa rætt við skilanefnd Straums en bankinn er enn í höndum skilanefndar þar sem hann er ekk kominn í greiðslustöðvun þrátt fyrir að beiðni um slíkt hafi verið lögð fram í morgun. Skilanefndin hafi fullvissað hann um að það verði að fullu staðið við gerða samninga við starfsfólk Straums.
Hann segir að það hafi verið gert þegar ríkið tók yfir bankana þrjá í október. „Hins vegar stendur eftir deila um forgangskröfur þegar menn hafa átt inni einhvers konar árangurstengingu. Þar eru menn ekki alveg sammála um hvort það falli undir forgangskröfur líkt og gildir um umsamin laun samkvæmt samningi."
Friðbert er ekki bjartsýnn á horfurnar á fjármálamarkaði hvað varðar framtíð starfsfólks í þeim geira. Nú þegar hafi starfsmönnum SPRON verið fækkað um eitt hundrað og sameiningar í farvatninu hjá sparisjóðum.
Leiðrétting sett inn klukkan 14:25
Ekki hefur verið að fullu gengið frá samningum við starfsmenn Landsbankans sem misstu vinnuna og eins við þá sem voru endurráðnir til nýja bankans, NIB. Hins vegar hefur verið að fullu gengið frá samningum við starfsmenn Glitnis og Kaupþing.