Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um íslenskt merki um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga, sem kynnt var fyrir fullum sal gesta á sjávarútvegssýningunni í Boston fyrr í vikunni. Þetta kemur fram í frétt á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag.
„Við reiknum með að fyrstu afurðirnar úr vottuðum stofnum muni koma á markað eftir rúmt ár,“ er haft eftir dr. Kristjáni Þórarinssyni, stofnvistfræðingi hjá LÍÚ og varaformanni Fiskifélags Íslands. Hann var einn þeirra er kynntu merkið í Boston.
Rætt var um þetta mál á Alþingi fyrir réttri viku síðan, þar sem Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra svaraði fyrirspurn Marðar Árnasonar.
Steingrímur sagði að kostnaður ríkisins vegna þessa nýja merkis hafi verið 6 milljónir króna á ári 2007 og 2008 í styrkjum frá AVS rannsóknarsjóði, en framhaldsumsókn sé til skoðunar fyrir 2009, einnig upp á 6 milljónir. Einnig hafi verið lagður fram fimm milljón króna styrkur. Útgjöld ríkisins vegna verkefnisins eru því orðin 17 milljónir nú þegar en gætu orðið 23 milljónir króna.
Á sama tíma hefur íslenskum útgerðum boðist að taka þátt í erlendum vottunarkerfum frá aðilum á borð við Marine Stewardship Council. Það hefði væntanlega þýtt mun minni kostnað við vottun íslenskra sjávarafurða og tekið mun skemmri tíma. Íslenskir útvegsmenn og a.m.k. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hafa hins vegar goldið varhug við samstarfi við þá aðila, meðal annars þar sem þeir séu of friðunarsinnaðir.
Íslenska merkið skírskotar til íslensks uppruna afurða, en mörg markaðssvæði leggja áherslu á að fá skýra upprunatengingu við Ísland. Merkið er í senn markaðstæki fyrir íslenska framleiðendur sjávarafurða og svar við kröfum markaða um að sjávarafurðir komi úr fiskistofnum, sem nýttir eru á ábyrgan hátt. Merkið er samstarfsverkefni hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi sem notið hefur stuðnings opinberra aðila.
Finnur Garðarsson, starfsmaður Fiskifélagsins, segir á vef LÍÚ að umsóknir íslenskra framleiðenda um að vera með í merkinu berist inn og frumkvæðið mælist vel fyrir.
Mörður Árnason spurði sjávarútvegsráðherra einnig hvernig ákvörðunin um að auka þorskkvótann um 30 þúsund tonn, gegn mótmælum Hafrannsóknarstofnunar, samræmdist kröfunum sem gerðar séu til íslenskra fiskveiða í skilyrðum þessarar nýju umhverfisvottunar.
Steingrímur sagði skilyrðin þá ekki tilbúin, en vísaði í yfirlýsingu forvera síns, sem sagði að uppbygging þorskstofnsins yrði hægari en ella vegna þessarar ákvörðunar, en hún sé samt í samræmi við yfirlýst markmið um sjálfbærar veiðar á þorski og öðrum nytjastofnum við Ísland.