Stjórn Bændasamtaka Íslands ákvað á fundi sínum í gær að áfrýja
úrskurði Samkeppniseftirlitsins til
úrskurðarnefndar samkeppnismála. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands hefðu
brotið gegn samkeppnislögum með aðgerðum sem hafi miðað að því að hækka
verð á búvörum. Brotið hafi snúið að búrvörum sem ekki lúta opinberri
verðlagningu samkvæmt búvörulögum.
Með ákvörðuninni var
Bændasamtökunum gert að greiða tíu milljónir króna í stjórnvaldssekt og
að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að samskonar brot verði
ekki endurtekin.
Ákvörðun stjórnar er í beinu samhengi við
umræður á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Þar kom berlega í ljós að bændur una
því ekki að liggja undir ámæli fyrir brot á samkeppnislögunum.
Úrskurðarnefnd samkeppniseftirlitsins hefur nú sex vikur til að
úrskurða um áfrýjun Bændasamtakanna. Því má gera ráð fyrir að
niðurstaða fáist í málið ekki seinna en í byrjun maí, að því er fram kemur á vef Bændasamtakanna.