Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur gert tvenns konar breytingar á reglugerð um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og tekur hún gildi nú þegar.
Annars vegar er ákvæðum reglugerðarinnar um álagningu stofnunarinnar á áfengi og tóbaki breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um verslun með áfengi og tóbak, á síðastliðnu haustþingi.
Samkvæmt lögunum skal álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%.
Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbak skal vera 18%. Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal lögð á innkaupsverð vöru.
Hins vegar eru gerðar breytingar á ákvæðum um stjórn Áfengis- og tóbaksverslunarinnar þannig að stjórnarmönnum er fjölgað út þremur í fimm og stjórnin er skipuð til ársloka 2009.
Fjármálaráðherra hefur skipað eftirtalda einstaklinga í stjórn Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Aðalmenn: Aðalheiður Héðinsdóttir, formaður, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, varaformaður, Eyjólfur Eysteinsson, Sigurður M. Magnússon og Maríanna Jónasdóttir.
Varamenn: Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Helga A. Erlingsdóttir, Bryndís Friðgeirdóttir, Dögg Pálsdóttir og Þórður Reynisson.
Enn fremur hefur fjármálaráðherra ákveðið að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að gera heildstæða úttekt á áfengislöggjöfinni. Meðal verkefna starfshópsins er að leggja mat á lagaumhverfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, áfengisauglýsingar og markaðssetningu áfengis.
Starfshópurinn mun verða undir forystu fjármálaráðuneytisins en í starfshópnum eiga einnig sæti fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Miðað er við að starfshópurinn skili tillögum sínum til fjármálaráðherra fyrir lok september næstkomandi.