Eignarnám Vegagerðarinnar ógilt í Hæstarétti

Hæstiréttur ógilti í dag eignarnám Vegagerðarinnar á 30,01 hektara lands og 136.500 m3 af jarðvegi í landi jarðarinnar Brekku í Núpasveit, vegna lagningar vegar frá þjóðvegi nr. 85 norðan Klapparóss austur um Hólaheiði í landi jarðarinnar. Snéri Hæstiréttur þar við niðurstöðu héraðsdóms sem heimilaði eignarnámið. Hins vegar féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að sýkna bæri sveitarfélagið Norðurþing af kröfu ábúenda.

Málskostnaður milli ábúenda og Norðurþings fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Hins vegar skal Vegagerðin greiða ábúendum samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málið snérist um ákvörðun Vegagerðarinnar um að leggja veg yfir jörðina Brekku í Núpasveit í Öxarfirði en ábúendurnir féllust ekki á að heimila veglagninguna.  Sveitarfélagið Norðurþing gaf út framkvæmdaleyfi til Vegagerðarinnar vegna vegar sem lá yfir Brekku en ábúendur bönnuðu allar framkvæmdir á jörðinni. Neytti Vegagerðin þá eignarnámsheimilar vegalaga. 

Ekki var talið sýnt fram á að Norðurþing hafi brotið reglur stjórnsýslulaga við veitingu framkvæmdaleyfis til Vegagerðarinnar. Hafi leyfisveitingin því ekki verið haldið slíkum annmörkum að varðað gæti ógildingu leyfisins og var Norðurþing sýknað af kröfum ábúenda, samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Talið var að eignarréttur ábúenda hafi verið varinn af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sem heimili því aðeins skerðingu þess réttar að almenningsþörf krefji, en við mat á því verði að gæta meðalhófs.

Ef unnt hafi verið með ásættanlegum hætti að ná markmiði framkvæmdarinnar með því að leggja veginn um eigið land ríkisins hafi Vegagerðinni borið að fara þá leið, að því er segir í dómi Hæstaréttar.

Var skilyrði stjórnarskrárinnar um almenningsþörf ekki talið hafa verið uppfyllt til þess að Vegagerðin gæti beitt eignarnámi gagnvart ábúendum Brekku. Var krafa þeirra um ógildingu eignarnámsins því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert