Hrottaleg ránstilraun á Laugavegi

Franch Michelsen úrsmíðameistari.
Franch Michelsen úrsmíðameistari. mbl.is/Kristinn

„Þetta var bara brútalt rán,“ segir Franch Michelsen úrsmíðameistari, en hettuklæddur karlmaður gerði tilraun til að ræna verslun hans á Laugavegi í morgun. Ræningin beitti piparúða á Franch sem náði að hrekja manninn á brott þannig að hann hafði því ekki erindi sem erfiði.

Franch var einn í versluninni þegar ræninginn, sem er ungur maður, lét til skarar skríða. Franch segist hafa náð að ýta á neyðarhnapp þegar maðurinn réðist á hann. Þegar ræninginn sá það lét hann sig hverfa. Þá var hann hins vegar búinn að tæma úr úðabrúsanum á verslunareigandann.

Franch segir að fólk í nágrenninu hafi komið sér til aðstoðar. Hann fékk vatn þannig að hann gæti þvegið sér í framan.

„Lögreglan var bara komin hingað á nokkrum sekúndum. Þeir eiga hrós skilið fyrir mjög snögg og góð viðbrögð,“ segir hann jafnframt.

Hann telur að ræninginn hafi komið inn í verslunina í gær til að kanna aðstæður. Myndir af ræningjanum náðust í eftirlitsvélakerfi verslunarinnar, bæði í dag og í gær, og nú rannsakar lögreglan upptökurnar.

„Þetta fór eins vel og hægt var,“ segir Franch í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert