Íslendingar engir hálfvitar

Hin umdeilda grein birtist í tímaritinu Vanity Fair.
Hin umdeilda grein birtist í tímaritinu Vanity Fair.

Stjörnublaðamaðurinn Michael Lewis, einn af þekktari viðskiptablaðamönnum Bandaríkjanna, fær heldur betur á baukinn á vef tímaritsins New York Magazine. Sakar greinarhöfundur, Jonas Moody, blaðamanninn um rangfærslur og afbakanir í lýsingum sínum á Íslandi og þjóðinni sem landið býr.

Ætla má að margir sjái grein Moody en um 1,6 milljón manna les tímaritið New York Magazine í viku hverri.

Sé grein Lewis lesin með fullkomnu húmorsleysi mætti ætla að hann líti svo á að Íslendingar séu óviðbjargandi, gjaldþrota hálfvitar úr annarlegri veröld.

Lewis skrifaði grein sína í hið útbreidda tímarit Vanity Fair og var grein hans tekið með velþóknun af mörgum Íslendingum, þar með talið rithöfundinum Guðmundi Andra Thorssyni, sem sá ástæðu til að fjalla um hana í pistli við hliðina á leiðara Fréttablaðsins.

Jón Baldvin Hannibalsson var líka hrifinn.

Áðurnefndur Moody er hins vegar ekki jafn sáttur.

Það fyrsta sem hann finnur að í grein Lewis er eftirfarandi setning:

„Fólkið hamstrar mat og reiðufé og sprengir upp nýju Range Rover jeppanna til að sækja tryggingafé.“ 

Moody, sem hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár, kannast ekki við þessa lýsingu. Svið og þorskur hafi vissulega hækkað í verði en enginn hamstri mat. Þá fari 99% allra viðskipta fram með kortum og því myndu íslenskir neytendur ekki vita hvað þeir ættu að gera við seðlabúntin.

Sprengja upp Range Rovera

Í öðru lagi hafi Lewis lýst óþægilegum sprengingum fyrir utan hótel herbergið og síðan gefið í skyn að þar hafi verið á ferð eigendur Range Rover jeppa sem leggi eld að drossíunum til að sprengja þær í loft upp til að hirða tryggingabæturnar. 

Þriðja atriðið sem Moody finnur að er sú staðhæfing Lewis að íslenska jarðhitavatnið sé svo heitt að það komi iðulega fyrir að fólk sé soðið lifandi þegar gert er við pípurnar.

Moody viðurkennir að lyktin af íslenska heitavatninu sé eins og af úldnum eggjum. Vatnið komi hins vegar ekki beint frá eldfjöllunum og geti þar að auki ekki farið upp fyrir 70 gráður í sturtunni.

Í fjórða lagi spyr hann hvað sé vandamál Lewis vegna þeirrar fullyrðingar hans að flestir Íslendingar séu klunnalegir og með fölbrúnan háralit.

Hvað varð um blaðamannaklisjuna af Íslendingar væru svo fallegir?

Skyldraæxlun hvergi meiri

Lewis er hér líklega farinn að hækka blóðþrýstinginn á þeim íslensku lesendum sem ekki kunna að meta skopskyn hans, eða háð, og varla bætir sú fullyrðing úr skák að skyldraæxlun sé hvergi meiri í heimi hér en einmitt hér, með vísan til þess að erfðafræðingar noti okkur Íslendinga gjarnan til rannsókna. 

Til að þessar glósur skiljist til fulls er það þekkt í erfðafræði að við skyldraæxlun eða innræktun geti komið fram alvarlegir erfðagallar. Staðalímyndin af þessum göllum er fötlun, ljótleiki og greindartap. 

Moody tekur af sér hanskann í svarinu við þessari fullyrðingu og bendir á að Y-litninga úr genamenginu megi einkum rekja til Norðurlanda en X-litninga (konurnar) til Bretlandseyja. Ástæða þess að deCODE noti íslensk gen sé sú að til séu skrár um fjölskyldutengsl langt aftur í tímann.

Ekki 9 fornöfn í gangi

Sá fróðleikur Lewis að aðeins um 9 fornöfn séu í gangi á Íslandi er síðan hrakinn með þeirri ábendingu að hátt í 1.700 fornöfn sé að finna í íslensku þjóðskránni.

Sjöunda aðfinnsla Moody er öllu meinlausari en hún varðar vísun Lewis til þeirrar staðreyndar að trúarhópar geti fengið greiðslur frá ríkinu með því einu að fylla út eyðublað.

Telur Moody þetta ónákvæmt, enda geti ekki hver sem er fengið greiðslur með þessu móti. 

Slær lán í klisjubankanum

Áttunda og síðasta atriðið varðar síðan hina endanlegu klisju erlendra blaðamanna, nefnilega að álfatrú tröllríði hér öllu. 

Moody kann að særa einhverja lesendur þessa fréttavefs en hann segist ekki þekkja neinn sem trúi á álfa.

Hæpið sé hjá Lewis að gefa í skyn að hér sé starfrækt einhverskonar álfaráðuneyti sem kanni álfabyggðir við sérhverja framkvæmd.

Það sé eins og að gefa til kynna að Íslendingar taki daglega Hogwart's lestina úr Harry Potter í vinnuna.

Þrátt fyrir alla þessa annmarka tekur Moody sérstaklega fram í inngangi að Lewis sé skemmtilegur maður að lesa.

En beislaði hann skáldfákinn um of? 

Grein Moody.

Grein stjörnublaðamannsins Lewis.

Stjörnublaðamaðurinn Michael Lewis.
Stjörnublaðamaðurinn Michael Lewis.
Blaðamaðurinn Jonas Moody.
Blaðamaðurinn Jonas Moody.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert