Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi Samfylkinguna harkalega á fundi flokksins á Hilton Reykjavík Nordica hóteli í gærkvöldi.
Hann sagði Samfylkinguna „loftbóluflokk“ en sagði Vinstri græn traustari og heiðarlegri í viðræðum. „Vinstri græn mega eiga það að ég hef aldrei staðið þau að öðru en að segja satt og það stendur allt sem þau segja, þó ég sé ekki sammála öllu sem þau segja [...] Samfylkingin er flokkur sem varð til við upphaf „loftbóluhagkerfisins“ þar sem allt fór að ganga út á ímynd og að hanna atburðarás og umræðu. Stundum finnst mér eins og Samfylkingin sé afsprengi þessa tímabils og sé hálfgerður loftbóluflokkur,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði Samfylkinguna ekki hafa lagt nógu mikla áherslu á lausnir og „raunverulega pólitík“.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag