Unnið var að því síðdegis í gær að hreinsa síld við höfnina í Eyjum sem hafði gert sig þar heimakomna á undanförnum vikum. Síldveiðiskipið Kap VE var notað til „veiðanna“ og náðust um 550 tonn um borð í tveimur köstum. Síldin er óhæf til manneldis og fer í bræðslu. Um 70% af þeim sýnum sem tekin voru reyndust sýkt
Vinnslustöðin lagði til skip og áhöfn í sjálfboðavinnu og rennur afrakstur af bræddum aflanum til Íþróttabandalags Vestmannaeyja, ÍBV. Eftir því sem næst verður komist hefur síld ekki veiðst svo nálægt höfninni í Eyjum í 50 ár en þá var hægt að nota allan þann afla til manneldis. Heimild fékkst fyrir þessum óvenjulegu veiðum nú frá Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun og sjávarútvegsráðuneytinu. Enn er töluvert magn eftir af síldinni og líklegt að „veiðunum“ verði haldið áfram um helgina.
Að sögn Ólafs M. Kristinssonar hafnarstjóra var nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða til að koma í veg fyrir frekari fitumengun í höfninni, svo ekki sé minnst á lyktarmengun sem af dauðri og sýktri síld gæti skapast.