Upp á síðkastið hefur borið á því að íslenskum aðilum hafi borist tölvupóstar frá erlendum aðilum sem óska eftir að ráða fólk til vinnu, að því er segir í aðvörun frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Atvinnutilboð þessi eru gjarnan um að viðkomandi taki að sér að leggja til bankareikninga í sínu nafni sem hinn erlendi aðili geti millifært inn á peninga.
Viðkomandi er síðan beðinn að taka peningana út af reikningunum og senda þá áfram, til dæmis með milligöngu peningasendingafyrirtækja, til þeirra aðila sem í hlut eiga.
Oft fylgja þessum tilboðum loforð um þóknun sem oft er föst prósenta af þeim fjármunum sem millifærðir eru. Tilboð þessi tengjast oftast fjársvikastarfsemi þeirra sem þau gera og hafa það að markmiði að þvætta ágóða af brotunum og koma í veg fyrir að hægt sé að rekja peningaslóðina til þeirra sem brotin frömdu. Peningaþvætti getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 264. gr. almennra hegningarlaga.
Hafi einhver svarað tölvupósti með þeim hætti sem lýst er að framan þá er hann vinsamlega beðinn um að hafa samband við efnahagsbrotadeild RLS.