Bankaleyndin gengið út í öfgar

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það verður langt þangað til það verður reynt aftur,“ sagði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, um samstarfið við Samfylkinguna í viðtali við Sölva Tryggvason í þættinum Spjallið með Sölva á Skjá einum nú í kvöld. Í þættinum sagði Geir það hafa verið misminni hjá sér að hann hefði ekki reynt að ná sambandi við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, eftir að þeir beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, líkt og hann lét hafa eftir sér í sjónvarpsþætti á BBC. Sagðist Geir hafa reynt að ná í Brown eftir að hryðjuverkalögin voru sett en fengið samband við Alistair Darling fjármálaráðherra.

Sölvi spurði Geir hvort ekki væri eðlilegt að hann bæði þjóðina afsökunar á því sem gerðist í íslensku efnhagslífi sl. haust. „Ég er ekki tilbúinn að biðjast afsökunar á því hvernig bankarnir hafa hagað sér,“ svaraði Geir. Síðar í þættinum sagði hann: „Þetta með afsökunarbeiðnina er flókið mál. Öllum mistökum, sem ég hef gert, og þau eru sjálfsagt mörg, ber ég ábyrgð á og get beðist afsökunar á þeim, en ekki því sem aðrir úti í einkageiranum eða erlendis bera ábyrgð á.“

Sagði Geir að finna yrði út hvar ábyrgðin lægi. „Mér þykir mjög miður að þetta skuli gerast svona,“ sagði Geir en benti á að í kringum kosningarnar 2007 hefði enginn flokkur talað um að bankarnir skyldu flytja úr landi. „Enginn talaði um annað en að þróun í bankakerfinu væri af hinu góða.“

Geir sagði bankana hafa verið alltof „gíruga“ í að stækka og þenja sig út. Nú sé því haldið fram að ýmsir í atvinnulífinu hafi notað bankana til að koma peningum úr landi í skattaskjól. „Þetta er óafsakanleg framkoma.“

Spurður út í viðbrögð Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, um gögn sem m.a. hafa verið birt í Morgunblaðinu og Sigurður telur brot á lögum um bankaleynd svaraði Geir: „Ég veit ekki hvað hann Sigurður er að fara með þessu,“ og bætti við að bankaleynd hefði gengið út í öfgar og menn komist upp með hluti í skjóli hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert