Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í fjórtán mánaða fangelsi fyrir þrjár líkamsárásir. Maðurinn játaði að hluta en var sakfelldur m.a. með hliðsjón af myndbandsupptöku sem tekin var af starfsmönnum fréttaskýringaþáttarins Kompás. Þar sást maðurinn sparka í fórnarlamb sitt, m.a. í höfuðið.
Fyrsta árásin átti sér stað í febrúar á síðasta ári. Þá réðist maðurinn á annan og sparkaði í höfuð hans þar sem hann lá í götunni. Maðurinn hlaut ekki alvarleg meiðsli af. Í dóminum segir þó að árásin hafi verið fólskuleg og stórhættuleg.
Þá var maðurinn sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir í júlí á síðasta ári. Annars vegar réðist maðurinn að öðrum á hóteli vegna peningaskuldar. Kýldi hann fórnarlamb sitt hnefahöggum. Hins vegar hitti hann fyrir mann við höfnina í Hafnarfirði. Þar tók hann fórnarlambið hálstaki og þrýsti honum niður til jarðar, þar sem hann sparkaði nokkrum sinnum í höfuð á honum. Í niðurstöðu dómsins segir að mildi þykir að fyrsta sparkið hafi ekki farið í hitt fórnarlambið í höfuðið. „Slíkt spark hefði getað orðið lífsógnandi,“ segir í dómnum.
Maðurinn á að baki sakarferil sem nær aftur til ársins 1992. Ekki þótti þó ástæða til rekja sakaferil mannsins í dómnum að öðru leyti en að hann var með dómi í nóvember 2003 dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Ekki þótti tilefni til að binda refsinguna skilorði að þessu sinni. Manninum var að auki gert að greiða rúmar 860 þúsund krónur í sakarkostnað.