HB Grandi hækkar laun starfsmanna

HB Grandi á Akranesi.
HB Grandi á Akranesi.

HB Grandi hef­ur ákveðið að greiða starfs­fólki fyr­ir­tæk­is­ins þær launa­hækk­an­ir sem samið hafði verið um að tækju gildi 1. mars áður en aðilar vinnu­markaðar­ins komu sér sam­an um að fresta þeim. Ákvörðunin hef­ur þegar verið kynnt starfs­fólki fyr­ir­tæk­is­ins.

HB Grandi er í Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins og þar með sjálf­krafa aðili að samn­ingn­um um áður­nefnda frest­un. Efl­ing-stétt­ar­fé­lag skoraði ný­verið á fyr­ir­tækið, í ljósi af­komu þess, að greiða áður um­samd­ar hækk­an­ir. HB Grandi hef­ur í dag á fundi með for­manni og skrif­stofu­stjóra Efl­ing­ar-stétt­ar­fé­lags og fram­kvæmda­stjóra Sam­taka at­vinnu­lífs­ins svarað er­ind­inu já­kvætt. Ákvörðunin nær til allra starfs­manna fyr­ir­tæk­is­ins sem frest­un­in náði yfir, annarra en æðstu stjórn­enda þess og gild­ir frá 1. mars.

„HB Grandi hef­ur und­an­farið lagt í um­tals­verðar fjár­fest­ing­ar til þess að styrkja stoðir fé­lags­ins og er m.a. að reisa nýja fisk­mjöls­verk­smiðju á Vopnafirði. Slík­ar fram­kvæmd­ir eru fjár­magns­frek­ar og fyr­ir­tækj­um því nauðsyn­legt að greiða hlut­höf­um a.m.k. lág­marks­arð til þess að halda eig­in fé inni í fyr­ir­tækj­un­um og koma í veg fyr­ir of mikla skuld­setn­ingu.

Stjórn­end­ur HB Granda harma þá nei­kvæðu umræðu, sem verið hef­ur um fyr­ir­tækið und­an­farna daga enda hafa þeir kapp­kostað að eiga góð sam­skipti við starfs­fólk fé­lags­ins og verka­lýðsfor­yst­una. Það er von þeirra að þessi ákvörðun skapi frið um rekst­ur fyr­ir­tæk­is­ins sem er mik­il­væg­ur fyr­ir starfs­fólkið og þjóðarbúið í heild," að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert