Raddir fólksins, sem hafa staðið fyrir mótmælafundum á Austurvelli í allan vetur, eða síðan 11. október, boðuðu í kvöld hlé á fundunum um óákveðinn tíma. Enginn fundur verður því á Austurvelli á morgun, laugardaginn 21. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herði Torfasyni, forsvarsmanni hópsins, í kvöld.
„Fólk er engu að síður hvatt til að láta ekki deigan síga og vera á verði, viðhafa gagnrýna hugsun og veita íslenskum stjórnmála- og peningamönnum virkt aðhald. Fundir Radda fólksins hafa byggst á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki vegna þeirra mannréttindabrota sem framin hafa verið á þjóðinni,“ segir í tilkynningu Harðar.
Þar segir ennfremur: „Fundirnir hafa haft mikil áhrif, verið leiðandi afl í því andófi sem viðhaft hefur verið, náð mjög miklum árangri og verið fastur punktur í tilveru þúsunda Íslendinga í allan vetur. Fundirnir hafa ekki síst veitt gríðarlega stórum hópi fólks félagslegan og andlegan stuðning í þeim hremmingum sem dunið hafa á íslensku samfélagi. Vel á sjötta tug ræðumanna hafa haldið þar ræður undir yfirskriftinni: Breiðfylking gegn ástandinu. Raddir fólksins biðjast velvirðingar á hve seint þessi ákvörðun var tekin en það var af óviðráðanlegum ástæðum. Við munum halda vöku okkar áfram og boða til fundar ef þurfa þykir og almenningur krefst aðgerða.“