Fréttaskýring: Keypt aðgengi að fjölmiðlum vafasamt

Fram­bjóðend­um í próf­kjör­um stjórn­mála­flokk­anna stóð sú þjón­usta til boða á sjón­varps­stöðinni ÍNN að kaupa sér hálf­tíma af út­send­ing­ar­tíma stöðvar­inn­ar til að kynna sjálfa sig og mál­efni sín.

Að mati Ingva Hrafns Jóns­son­ar, sjón­varps­stjóra ÍNN, telst slík dag­skrá ekki aug­lýs­ing og ekki sé held­ur um það að ræða að viðtöl séu seld, held­ur aðeins út­send­ing­ar­tím­ar. Kaup­and­an­um er hins veg­ar í sjálfs­vald sett hvert um­fjöll­un­ar­efnið er skv. þessu til­boði, hverj­ir viðmæl­end­ur eða spyrl­ar eru og hvaða spurn­ing­ar eru lagðar fram.

Þessi dag­skrár­gerðaraðferð stöðvar­inn­ar er á gráu svæði að ýmsu leyti. M.a. má færa má rök fyr­ir því að tekju­öfl­un af þessu tagi stang­ist á við út­varps­lög nr. 53/​2000 sem til­greina að aðeins sé heim­ilt að afla tekna með af­nota­gjaldi, áskrift­ar­gjaldi, aug­lýs­ing­um, fjar­söluinn­skot­um, kost­un og sölu eða leigu á vör­um. Hulda Árna­dótt­ir lög­fræðing­ur bend­ir á að út­varps- og sjón­varps­stöðvum séu sett­ar þess­ar skorður m.a. til að vernda rit­stjórn­ar­legt sjálf­stæði þeirra. Sjálf­stæði rit­stjórna er ekki fyr­ir­skipað með lög­um, en skýr­ar regl­ur um bæði eign­ar­hald og rekst­ur geta þó stuðlað að því að það sé tryggt.

Verður að vera skýrt af­markað

Með þessu á að vera tryggt að áhorf­end­ur velk­ist ekki í nein­um vafa um að ekki sé um sjálf­stæða dag­skrár­gerð að ræða. Deila má um hvort þessu hafi verið fylgt á ÍNN. „Okk­ur kem­ur ekki við hvernig próf­kjörsmeðlim­ir nýta þetta,“ seg­ir Ingvi Hrafn Jóns­son. Sjón­varps­stöðin rit­stýri í engu því sem kaup­end­ur þess­ara dag­skrárliða setja fram í þátt­un­um öðru en því að ærumeiðandi efni sé ekki sent út.

„Þeir kaupa þarna hálf­tíma­lang­an upp­töku­tíma í stúd­íói án allra skuld­bind­inga. Að okk­ar mati er þetta langó­dýr­asta aug­lýs­ing­in sem völ er á og við höf­um boðið stjórn­mála­flokk­un­um þetta líka þegar líður að kosn­ing­um og við höf­um fengið fyr­ir­spurn­ir frá mörg­um flokk­um.“

Dögg Páls­dótt­ir, einn þeirra fram­bjóðenda sem nýttu sér til­boð ÍNN, vakti í kjöl­farið máls á því að fá önn­ur úrræði stæðu þeim fram­bjóðend­um til boða sem ekki hefðu „ókeyp­is áskrift að reglu­leg­um viðtöl­um“ í þátt­um sem kostaðir eru af skatt­greiðend­um, Silfri Eg­ils og Kast­ljósi. Á hinn bóg­inn hlýt­ur það að telj­ast ekki síður and­lýðræðis­legt að efna­hag­ur fram­bjóðenda eða aðgang­ur þeirra að fjár­magni ráði því hversu vel þeir geta komið sjálf­um sér á fram­færi fyr­ir kosn­ing­ar.

Nú er unnið að end­ur­skoðun út­varps­laga, enda talið að þau séu að mörgu leyti orðin úr­elt í heimi þar sem miðlun upp­lýs­inga tek­ur sí­fellt á sig nýj­ar mynd­ir. Hugs­ast get­ur að skýr­ar laga­heim­ild­ir verði þá fyr­ir dag­skrár­gerð líkt og þeirri sem ÍNN býður nú til sölu, en hún virðist ekki rúm­ast inn­an nú­gild­andi laga.

Frelsið til að vita

Ástæða er til að gjalda var­hug við dag­skrár­gerð með þess­um hætti að mati Gísla Tryggva­son­ar, tals­manns neyt­enda. Í til­felli próf­kjörsþátt­anna á ÍNN sé um að ræða póli­tíska kynn­ingu og því um hags­muni kjós­enda að ræða. Ef grun­ur vaknaði um að markaðsaðilar greiddu með sama hætti fyr­ir um­fjöll­un sem á að vera sjálf­stæð, og brytu bein­lín­is á hags­mun­um neyt­enda, myndi hann íhuga kæru.

„Aðal­málið er að það dylj­ist eng­um að það sé aug­lýs­ing, því það er hluti af tján­ing­ar­frels­inu að vita hverj­ir eru að tjá sig og hvers vegna,“ seg­ir Gísli. „Mér virðist þetta staðfesta það sem ég hef lengi talið að hér þarf sterka fjöl­miðlastofn­un sem hef­ur eft­ir­lit með fjöl­miðlum og hags­mun­um neyt­enda, enda hef­ur mér fund­ist út­varps­rétt­ar­nefnd rög við að beita þeim vald­heim­ild­um sem hún hef­ur.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert