Lögregla leitar skartgripaþjófs

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar manns sem hefur síðustu daga komið í skartgripaverslanir með það fyrir augum að stela verðmætum. Í hádeginu í gær var gerð tilraun til ráns í skartgripaverslun við Laugaveg. Starfsmaður verslunarinnar var úðaður með piparúða en maðurinn náði engu fémætu. Í dag komst hann hins vegar á brott með bakka af armböndum úr verslun í Kópavogi.

Upplýsingar liggja fyrir um að sami maður hafi farið í fleiri skartgripaverslanir og meðhöndlað skartgripi sem starfsfólk sýndi honum. Af þeirri ástæðu er rétt að vara starfsfólk skartgripaverslana við og benda því á að hafa varan á gagnvart mögulegum þjófnuðum.

Í dag var stolið bakka með gullkeðjum/armböndum sem starfsmaður verslunar við Hamraborg í Kópavogi sýndi manninum. Hann komst undan á hlaupum með veruleg verðmæti, aðallega armbönd, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þjófurinn er um þrítugt og u.þ.b 180 sm á hæð. Hann er grannvaxinn, dökkhærður, snöggklipptur og af erlendu bergi brotinn.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um þjófinn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1100.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert