Stjórnar Rekstrarfélags Kringlunnar hefur ákveðið að draga úr afgreiðslutíma Kringlunnar í vor og sumar, í því skyni að draga úr kostnaði rekstraraðila. Við þessar breytingar er þó reynt að tryggja að þær hafi sem minnst áhrif á viðskiptavini Kringlunnar, að því er segir í tilkynningu.
Nýlega gerði Rekstrarfélag Kringlunnar könnun meðal kaupmanna þar sem könnuð var afstaða til afgreiðslutíma Kringlunnar við núverandi aðstæður. Í ljós kom að rúm 80% þeirra töldu að draga mætti úr afgreiðslutíma Kringlunnar í hagræðingarskyni.
Í ljósi þess var ákvörðun tekin um að frá og með 9.apríl og til og með 10.ágúst næst komandi verði afgreiðslutími Kringlunnar á fimmtudögum frá kl. 10:00-19:00 í stað 10:00-21:00 og á sunnudögum verður hann einnig styttur. Eftir 10.ágúst mun afgreiðslutími Kringlunnar færast til fyrra horfs.
Rekstargjöld lækkuð
Á fundi stjórnar Rekstrarfélags Kringlunnar þann 4. nóvember síðastliðinn var samþykkt rekstraráætlun fyrir árið 2009. Í henni er gert ráð fyrir því að rekstrargjöld ársins 2009 lækki um 13,0% að nafnverði frá rekstraráætlun ársins 2008 eða um 23,8% að teknu tilliti til verðlagsbreytinga á árinu 2008.