Ekki meiri síld í Eyjum

Síldveiðar Kap við Básaskersbryggju á miðvikudag.
Síldveiðar Kap við Básaskersbryggju á miðvikudag. mynd/eyjar.net

Sjávarútvegsráðuneytið hefur samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar stöðvað frekari síldveiðar í Vestmannaeyjahöfn. Þorsteinn Sigurðsson, forstöðumaður nytjastofnasviðs, segir engar fiskifræðilegar forsendur fyrir frekari veiðum. Síldin verði að fá að njóta vafans.

Hafró tók sýni úr þeim afla sem náðist á land á miðvikudag. Hlutfall sýktrar eða lítið sýktrar síldar var svipað og sést hefur víðar við land að undanförnu, einkum á suðvesturhorninu. Þorsteinn telur ágætar líkur á að síldin geti átt eftir að leita út úr höfninni í fæðuleit, lítið þurfi til að hún færi sig til. Áfram verði fylgst vel með síldinni í Vestmannaeyjahöfn og fleiri sýni tekin. Muni hún dvelja þarna enn um sinn verði ráðgjöf Hafró endurskoðuð.

„Við skiljum vel að heimamenn séu ósáttir við þessa ákvörðun en okkar hlutverk er að vernda hagsmuni síldarinnar og annarra fiskistofna við landið,“ segir Þorsteinn en eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag átti andvirði síldarinnar, sem öll fór í bræðslu, að renna til íþróttafélagsins ÍBV. Ágóðinn verður þó einhver af því sem komið er á land.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka