„Staða margra smábátasjómanna er vægast sagt mjög erfið. Þeir hafa fjárfest mikið í veiðiheimildum og tekið til þess erlend lán sem hafa hækkað gríðarlega,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Hann segir að þegar kvótinn var skertur um þriðjung, hafi trillukarlar neyðst til að ná sér í það sem upp á vantaði til að halda áfram í greininni. Allir viti hvernig erlendu lánin hafi þróast og nú standi skuldir margra trillukarlanna í milljónatugum.
„Lánastofnanir hafa boðið upp á frystingar lánanna en það er munur á hvort um er að ræða nýju ríkisbankana eða sparisjóðina. Nýju bankarnir hafa boðið upp á frystingu til allt að tveggja ára en hjá sparisjóðunum er frystingin til skemmri tíma. Við þetta bætist svo að fiskverð hefur lækkað og þá tekur í að greiða, þó ekki sé nema vextina af þessum lánum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Hann segir smábátasjómenn nú bíða eftir því hvaða stefna verður mörkuð í bönkunum um aðgerðir vegna skulda einstaklinga og fyrirtækja en ljóst sé að aðgerða sé þörf sem fyrst.