Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær laun unglinga í vinnuskóla bæjarins í sumar. Eru launin í öllum aldurshópum svipuð þeim launum sem unglingar fá í vinnuskóla Reykjavíkurborgar næsta sumar en þar verða launin þau sömu og síðasta sumar. Þrátt fyrir að tímakaupið sé í öllum tilvikum hærra hjá Akureyrarbæ þá er 10,17% orlof innifalið í tímakaupinu á meðan það reiknast ofan á laun starfsmanna hjá vinnuskólanum í Reykjavík.
Í gær samþykkti bæjarráð Akureyrar að nemendur í áttunda bekk fái 359 krónur á tímann. Í Reykjavík fær sami aldurshópur 325 krónur á tímann.
Nemendur í níunda bekk á Akureyri fær 410 krónur á tímann. Í Reykjavík fær sami aldurshópur 366 krónur á tímann.
Tíundu bekkingar fá 539 krónur á tímann á Akureyri en 486 krónur í Reykjavík.
Formaður Einingar Iðju er ekki sáttur við þessa ákvörðun bæjarráðs á Akureyri og segir á vef verkalýðsfélagsins að í könnunum sem annars vegar Eining-Iðja og hins vegar Afl Starfsgreinafélag gerðu í fyrra kom í ljós að laun í vinnuskólanum á Akureyri voru með þeim lægstu í þeim 12 sveitarfélögum sem könnunin náði til.
Sveitarfélögin ákveða sjálf laun fyrir þessi ungmenni, en skv. túlkun Launanefndar sveitarfélaga (LN) falla vinnuskólar sveitarfélaga ekki undir kjarasamninga stéttarfélaga, enda sé um að ræða sambland af vinnu og námi og að ungmennin séu yngri en 16 ára. Þrátt fyrir það virðast sveitarfélögin vera að setja 16 ára ungmennin undir flokkinn Vinnuskóli.
Eining-Iðja dregur það í efa að 16 ára krakkar eigi að falla undir flokkinn Vinnuskóli. Félagið mun fylgjast með og skoða laun í öðrum sveitarfélögum þegar búið er að ákveða þau, en í könnunum í fyrra kom það vel í ljós að ekki virðast vera sömu viðmiðanir hjá sveitarfélögunum þegar þessi laun eru reiknuð.
„Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki sáttur við að launin hækki ekki frá fyrra ári. Hvers eiga börnin að gjalda með því að fá ekki hækkun milli ára eins og aðrir? Ég bara spyr,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og bætir við að það hefði verið ákveðið í kjarasamningum í vor að málefni vinnuskólanna verði skoðuð, að því er segir á vef Einingar-Iðju.
Allir fá vinnu en vinnutíminn skertur
Allir unglingar í Reykjavík sem eru í 8., 9. og 10. bekk geta skráð sig í vinnuskólann í sumar. En til að mæta þeim kostnaði sem hlýst af auknum fjölda nemenda verður vinnutími þeirra skertur. Sami starfsmannafjöldi verður ráðinn til starfa eða 200 starfsmenn.
Til þess þeir ráði við aukin nemendafjölda munu nemendur velja sér vinnutímabil og vinna samfellt sinn vinnutíma. Með því móti verður dreifing nemenda meiri yfir sumarið.
Nemendur geta skráð sig í vinnuskólann í Reykjavík íapríl. Tímakaup nemenda verður það sama og síðasta sumar. Nemendur í 8. bekk fá vinnu í 3 vikur, 3,5 tíma á dag, nemendur í 9. bekk fá vinnu í 4 vikur, 3,5 tíma á dag og nemendur í 10. bekk fá vinnu í 4 vikur, 7 tíma á dag.