„Við höfum mestar áhyggjur af óhóflegri tekjutengingu fjármagnstekna við lífeyri hjá Tryggingastofnun. Það er líka slæmt ef lífeyrissjóðirnir bregðast, ofan á allt annað,“ segir Helgi K. Hjálmsson, formaður stjórnar Landssambands eldri borgara. Samtök eldri borgara hafa áhyggjur af fyrirsjáanlegri skerðingu á lífeyri hjá lífeyrissjóðunum.
Eignir allra lífeyrissjóðanna rýrnuðu á síðasta ári vegna erfiðleika á fjármálamarkaði um 10 til 30% og það vantar upp á að eignir allra stærri sjóðanna dugi til að hægt sé að standa undir fullum lífeyrisgreiðslum í framtíðinni. Nokkrir sjóðir hafa boðað lækkun lífeyris.
Unnar Stefánsson, nýkjörinn formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, segir mikilvægt að standa vörð um lífeyrissjóðina, þeir eigi að vera friðhelgir.
Helgi Hjálmsson segir að vissulega hafi bankahrunið haft áhrif á ávöxtun lífeyrissjóðanna. Skerðing sparnaðar eldri borgara í lífeyrissjóðunum bætist ofan á ýmsar aðrar hremmingar, s.s. tap margra á séreignarsparnaði. „Fólk hefur ekki í nein hús að venda. Við höfum verið að berjast fyrir hækkun grunnlífeyris Tryggingastofnunar en talað fyrir daufum eyrum. Það er ætlast til þess að eldri borgarar lifi á tekjum langt undir fátæktarmörkum. Svo er fólki refsað fyrir ráðdeildarsemi því vextir og verðbætur af sparnaði sem fólk hefur náð að nurla saman og rétt nær að hanga í verðlagsþróun koma til frádráttar lífeyri,“ segir Helgi.